Mjúkt taco með BBQ kjúklingabaunum

Þessi máltíð er með þeim fljótlegri. Aðal verkið felst í því að skera niður svolítið grænmeti, því það er ekkert sem þarf að malla lengi í ofni eða á pönnu. Við byrjum á að finna allt til og skera grænmetið niður. Börnunum finnst gaman að fá að leggja á borð og setja hrátt niðurskorið grænmeti í skálar á matarborðið. Á meðan snöggsteikjum við grænmeti og kjúklingabaunir á pönnu og hitum litlar tortillur í ofninum í stutta stund.
Svo raða allir í sínar eigin tacos við matarborðið eftir smekk

Uppskriftin miðast við 2-3 manns - margfaldið að vild
BBQ kjúklingabaunir
- 1 krukka lífrænar kjúklingabaunir
- 1 msk kókosolía
- ½ tsk reykt paprika
- ½ tsk sjávarsaltflögur
- 2 msk bbq sósa (má sleppa)
Hellið vökvanum af kjúklingabaununum, skolið þær og þerrið.
Hitið kókosolíu á pönnu, setjið kryddið út á (ásamt bbq sósu ef þið eigið og viljið nota) og hrærið í.
Bætið kjúklingabaununum út í og látið malla þar til kjúklingabaunirnar eru orðnar heitar.
Hér er uppskrift að heimagerðri BBQ sósu fyrir þá sem vilja
Steikt grænmeti
- Góð olía til að steikja upp úr
- 2 dl blómkál í litlum bitum
- 1 dl fínt skorið hvítkál
- 1 dl gulrætur í þunnum sneiðum
- 1 dl þunnt skorinn rauðlaukur
- 1 dl maís (maískorn skorið af ferskum maísstöngli EÐA úr dós)
- 2 tsk mexíkósk kryddblanda (t.d. lífræn kryddblanda fyrir taco frá Santa Maria)
- smá sjávarsaltflögur
Hitið olíuna á pönnu, steikið grænmetið í smá stund og kryddið.
Smakkið til með sjávarsaltflögum
Mjúkt taco
- mjúkar tacos (litlar tortillur) t.d. frá Santa Maria
- (við fundum reyndar fallegar fjólubláar og gular maís tortillur í frystinum í Hagkaup fyrir myndirnar)
- ykkar uppáhalds hráa grænmeti - tómatar/gúrka/paprika/gulrætur
- avókadó í sneiðum (eða guacamole)
- ferskur kóríander
- sýrður hafrarjómi (t.d. frá Oatly)
- lime til að kreista yfir ef vill
Skerið niður það hráa grænmeti sem fjölskyldumeðlimir eru hrifnir af og setjið í skálar.
Setjið BBQ kjúklingabaunir og steikt grænmeti líka í skálar.
Berið fram ferskan kóríander, avókadósneiðar (eða guacamole ) og sýrðan hafrarjóma.
Hitið mjúk tacos í ofni (tekur bara 1-2 mín).
Nú geta allir raðað í sitt taco eftir smekk. Eða þá að kokkurinn raðar í nokkrar og ber fram á fallegu fati.
Guacamole uppskrift fyrir þá sem vilja
Njótið í góðum félagsskap!
