Sveppa penne með salvíu

Pasta og pizzur

  • 2 manns
  • Auðvelt
  • Sveppa penne með salvíu
  • Vegan: Já
  • Viðbættur sykur: Nei
  • Eggjalaust: Já

Uppskrift

Himneskt penne er gert úr heilmöluðu korni sem er ræktað á ökrunum í kringum Montebello klaustrið í Marche, á Ítalíu. Þessir akrar hafa verið ræktaðir um langan aldur án notkunar tilbúins áburðar og varnarefna. 

Pastað er hægþurrkað, sem fullkomnar bragð og áferð þess og viðheldur næringargildi hráefnisins eins og best verður á kosið. Hægt er að velja penne úr lífrænt ræktuðu heilhveiti eða lífrænt ræktuðu heilmöluðu spelti.

Sveppa penne með salvíu er virkilega góður pastaréttur sem er upplagt að útbúa þegar stemning er fyrir einhverju ljúffengu og fljótlegu. Uppskriftin miðast við tvo, en auðvelt er að stækka fyrir fleiri.

  • 150g lífrænt penne, ósoðið
  • olía til að steikja upp úr eða vegan smjör
  • 1 lítill rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 3 salvíublöð + 5 til að skreyta með
  • 3 hvítlauksrif, skorin í þunnar sneiðar
  • 250g sveppir (3 teknir frá til að skreyta með)
  • 200g rjómaostur, vegan rjómaostur fæst t.d. í flestum stórmörkuðum (líka hægt að nota kókosmjólk)
  • 1-2 tsk sjávarsaltflögur
  • smá parmesan til að rífa yfir, vegan parmesan fæst t.d. í flestum stórmörkuðum

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningunum á pokanum, á meðan pastað er að sjóða þá er sósan búin til.
Setjið olíu á pönnu og steikið rauðlaukinn og hvítlaukinn í 2-3 mínútur ásamt 3 salvíublöðum.
Bætið sveppunum út á og steikið þar til sveppirnir taka á sig gylltan lit.
Bætið rjómaostinum út í  og hrærið í á meðan hann blandast saman við sveppina.
Hellið vatninu af pastanu. Setjið svo pastað út á pönnuna með sósunni og blandið saman.
Steikið nokkra sveppa aukalega til að skreyta með. Steikið nokkur salvíublöð til að fullkomna skreytinguna, þetta galdrar þennan einfalda rétt í aðrar víddir.