Chiagrautur með hindberjum

Grautar

  • Auðvelt
  • Vegan: Já
  • Hráfæði: Já
  • Viðbættur sykur: Nei
  • Mjókurlaust: Já
  • Eggjalaust: Já
  • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Suma morgna er heimsins besta tilfinning að uppgötva að það er til tilbúinn morgunmatur í ísskápnum! Gott ráð er að útbúa stóran skammt af hreinum chiagraut sem geymist í u.þ.b. 5 daga í kæli í lokuðu íláti. Svo er fljótlegt að ná sér í hæfilegan skammt í skál og setja eitthvað góðgæti út á.  Í þessari útgáfu eru það hindber, kakónibbur og granateplakjarnar, ásamt dásamlegri hindberjamjólk. 

Chiagrautur - stór skammtur

  • 1 dl chiafræ
  • 1 dl tröllahafraflögur
  • 2 dl haframjólk
  • 2 dl kókosmjólk
  • 1 tsk vanilluduft
  • ¼ tsk sjávarsalt 

Setjið allt í hrærivél og látið vélina hræra í a.m.k. 20 mínútur. Með þessari aðferð fær grauturinn ofsalega skemmtilega og góða áferð, verður aðeins léttari í sér. Einnig er hægt að útbúa grautinn án hrærivélar, áferðin verður bara aðeins öðruvísi. Leggið þá chiafræin og tröllahafrana í bleyti í haframjólk yfir nótt og hrærið síðan upp með kókosmjólkinni næsta dag.

Grauturinn geymist í u.þ.b. 5 daga í kæli, í loftþéttu íláti. (Ef notuð er heimagerð jurtamjólk geymist grauturinn í 3 daga í kæli). 

Góðgæti út á grautinn

  • Nokkur hindber 
  • 1 msk granateplakjarnar 
  • 1 tsk kakónibbur 

Hrærið hindberjum, granateplakjörnum og kakónibbum saman við 1 dl af tilbúnum graut. Geymist í 2-3 daga í kæli þegar búið er að bæta góðgæti út í.
Ef þið eruð í stuði er algjör lúxus að hella smá hindberjamjólk út á þennan graut. 

Hindberjamjólk: 1 dl jurtamjólk + 1 msk hindber + sæta að eigin vali ef vill.