Berjatíð

Síðsumars er nærandi að skreppa í berjamó

Síðsumars og á haustin eru margir sem hafa það fyrir venju að kíkja í berjamó. Hvílíkur lúxus að hafa aðgang að þessum gersemum sem villtu berin okkar eru.

Bláber og krækiber eru margrómuð fyrir hollustu, auðug af vítamínum, steinefnum, trefjaefnum og öðrum góðum efnum. Bláber eru sérstaklega rík af andoxunarefnum og krækiber eru góður járngjafi. Hægt er að lesa meira um heilsusamlega eiginleika berjanna hér á síðu Landlæknisembættisins

Útivistin og samveran í náttúrunni eru þó ekki síður mikilvægur partur af hollustu berjanna, að okkar mati. Við mælum með því að leyfa yngstu kynslóðinni að njóta þessarar skemmtilegu hefðar með okkur. Berjamó getur verið yndisleg gæðastund og börnin læra að njóta þess sem náttúran gefur af sér. Gott ráð er að hafa ílátin í minni kanntinum þegar smáir fingur eru með í för, svo auðveldara sé að ná botnfylli, það er svo hvetjandi. Svo geta allir hellt uppskerunni í sameiginlegt stærra ílát og haldið ótrauðir áfram að safna. Stundum vilja börnin helst tína berin beint upp í munn, okkur finnst það frábært, enda verður maturinn ekki mikið ferskari en beint af lynginu. Svo er um að gera að halda berjaveislu strax og heim er komið!

Blaber-og-mosi

Mörgum finnst síðan gott að fara aftur í afkastameiri ferð til að safna vel í sarpinn fyrir veturinn. Og frysta jafnvel stóran hluta uppskerunnar til að eiga fyrir haustið og veturinn. Frosin ber fríska upp á morgungrautinn, eru frábær í hristinga og ljúffeng í eftirrétti. Og auðvitað er mikil hefð fyrir því að sulta og safta. 

Hér á uppskriftavefnum okkar er samansafn af ýmsum góðum berjauppskriftum, undir Árstíðirnar-Haust. Við bætum reglulega við nýjum uppskriftum, til að gefa ykkur innblástur. Hér finnið þið bæði sólberja, rifsberja og bláberjasultur, sem og krækiberjasaft, berjaís og berjabökur.

Við notum oftast minna magn sykurs í uppskriftirnar en venjan er. Okkur finnst bragðið af berjunum njóta sín betur þannig. Við notum krydd eins og kanil, vanillu og engifer til að gefa gott bragð og minnka sykurþörfina. Og oft veljum við döðlur eða aðra þurrkaða ávexti í staðinn fyrir unninn sykur. Hér áður fyrr var sykur mjög gagnlegur til að auka geymsluþolið, en nú til dags hafa flestir aðgang að frysti og því er raunhæfur valkostur að minnka sykurmagnið í sultum og saft alveg heilan helling. Gott er að muna að sykurminni sultur hafa styttra geymsluþol. Því er upplagt að frysta hluta af sultunni, eða sulta minni skammta í einu og útbúa svo aftur sultu úr frystum berjum síðar. 

Njótið ykkar í berjamó!


Nokkrar góðar uppskriftir
Berjabaka
Sykurlaus krækiberjasaft 
Krækiberjabökur 
Bláberjasulta 
Krydduð bláberjasulta  
Hrærð bláber 
Bláberja- og sólberjasulta 
Sólberjasulta
Rifsberjahlaup 
Bláberjaís 
Bleikur berjaís 
Bláberjahristingur 
Sólberjaskál