Endurnýttar krukkur

Góð húsráð

  • hreinar krukkur

Það getur verið hagkvæmt og umhverfisvænt að endurnýta krukkur undan matvöru. Krukkur eru til margs nýtilegar og það getur sparað okkur útgjöld að þurfa ekki að kaupa ný ílát fyrir hitt og þetta. Krukkur eru mun fallegri þegar búið er að hreinsa gamla miða og lím af þeim, og við lumum einmitt á góðum húsráðum.

Síðsumars seljast nýjar tómar krukkur eins og heitar lummur, þá er mikið verið að sulta allskyns ber og góðgæti. Endrunýttar krukkur eru auðvitað ekkert síðri í sultugerðina 

Krukkur eru líka frábær ílát fyrir chiagrauta, eða sósur, pestó og hummus. Við getum geymt matarafganga í krukkum inni í kæli, við getum tekið nesti með okkur í krukkum. Og hægt er að frysta mat (t.d. súpur og pottrétti) í glerkrukkum, bara passa að fylla krukkuna ekki meira en 3/4 og kæla matinn fyrst. Flöskur eru frábærar undir heimagerða möndlumjólk og sjeika. Hægt er að breyta uppáhalds krukkunni eða flöskunni í take away ílát fyrir kaffi eða heita súpu með því að hekla hitahlíf utan um, sem bæði heldur hita á innihaldinu og ver fingurna.

Sumir nota krukkur til að geyma hráefni úr opnuðum plast pakkningum, t.d. hnetur, fræ, þurrkaða ávexti, grjón og þess háttar. Svo má geyma allskyns smádót í fallegum krukkum, t.d. klink, penna, tölusafnið, tvinna ofl. Hægt er að breyta krukkum í kertastjaka, blómavasa, nota þær undir gjafir, láta fræ spíra í þeim, möguleikarnir eru nær endalausir. Þegar ekki er lengur pláss eða not fyrir fleiri krukkur má síðan senda restina í endurvinnslu á gleri í sérstaka gler gáma.

Dal-mynd-2Krukkur eru góðar undir þurrkaðar baunir

hreinar krukkurHreinar krukkurKrukkur eru mun fallegri þegar búið er að hreinsa gamla miða og lím af þeim. Mis auðvelt er að ná lími og miðum af krukkum, oft er nóg að leggja krukkuna í bleyti í skamma stund og miðinn flýgur af. En stundum eru límmiðarnir þrjóskir og þá er gott að eiga húsráð upp í erminni.

Hér höfum við blöndu sem virka mjög vel og það besta er að ef við notum berar hendur við hreinsunarstarfið verða hendurnar dásamlega mjúkar eins og eftir góðan handáburð.


Olíuskrúbbur

½ dl ólífuolía eða kókosolía
2 msk matarsódi eða sjávarsalt
1 tsk sítrónudropar

Aðferð

Blandið öllu saman og geymið í krukku með loki. Tilbúið til notkunar þegar þarf.
Látið krukkur sem þarf að hreinsa liggja í heitu sápuvatni, t.d. yfir nótt. Skafið miðana af, gott er að nota harða endanum á uppþvottaburstanum. Ef lím situr eftir á krukkunni er gott að nudda límrestarnar upp úr olíuskrúbbnum hér að neðan. Hann ætti að leysa límið upp. Stundum þarf auka kraft og þá má skrúbba með hrjúfu hliðinni á uppþvottasvampi, með olíublöndunni á. Hreinsið að lokum aftur með sápuvatni, nú ættu allar krukkurnar að vera orðnar skínandi hreinar og fallegar og tilbúnar til notkunar.