Heimagerð jurtamjólk

Leiðbeiningar skref fyrir skref

Það er mikið einfaldara og fljótlegra að búa til eigin jurtamjólk en margan grunar. Kosturinn er að við ráðum áferðinni, hvort hún er þunn eða rjómakennd, ásamt því að ráða sætumagninu sjálf og hvaða sæta er notuð. Við sigtum oftast jurtamjólkina okkar, aðallega til að kornin erti ekki litla hálsa. Ef þið ætlið að nota mjólkina í sjeika og eigið kraftmikinn blandara getið þið sleppt því að sigta. Okkur finnst gott að leggja möndlurnar/hneturnar/fræin í bleyti þegar við búum til jurtamjólk. Ástæðan er sú að okkur finnst hún bæði verða auðmeltari ásamt því að hráefnið nýtist betur og það verður minna hrat. Við hendum aldrei hratinu því það er frábært að nota í matargerð, t.d. í bakstur og í sjeika til að gera þá trefjaríkari. Upplagt er að frysta hratið ef ekki hentar að nota það fljótlega. Og munið að það er hægt að gera vænan skammt af mjólkinni og frysta í passlegum skömmtum. Þá frystum við mjólkina i silikon formum (muffins) því þá er svo einfalt að taka það magn úr frystinum sem við ætlum að nota. 
Gerir um ½ lítra af mjólk

1.5 dl hnetur/fræ
4.5 dl vatn

   

Aðferðin

  1. Veljið hnetu eða fræ
  2. Leggið í bleyti yfir nótt (8 klst) - látið vatnið fljóta vel yfir möndlurnar
  3. Hellið íbleyti vatninu af og skolið í sigti
  4. Setjð i blandara með vatni
  5. Síið gegnum spírupoka
  6. Ef þið viljið sæta mjólkina bætið þá sætu að eigin vali út í.
  7. Hellið í hreina flösku
  8. Geymist nokkra daga í kæli
 

*Hægt er að nota möndlusmjör, hnetusmjör eða tahini í stað hneta/fræja.