Berjadraumur úr garðinum
Ég var ekki búin að ákveða hvað ég vildi gera úr berjunum, en svo kom mamma í heimsókn til mín og þá mundi ég eftir ómótstæðilegu berjapæjunni hennar. Ég stakk upp á að hún myndi töfra fram þennan berjadraum:
Sólber vekja upp nostalgíu hjá mér, amma hefur alltaf gert svo góða sólberjasultu. Ég man líka eftir ljúffengri sólberjatertu úr svampbotni sem amma bjó til þegar ég var lítil og við borðuðum í garðinum hennar í síðsumarsólinni. Gaman hvernig svona minningar rifjast stundum upp í gegnum bragðið og lykt. Sólber eru semsagt í uppáhaldi hjá mér og ég var því meira en til í að fá smá af uppskerunni hennar ömmu, þegar hún bauð mér að koma og tína með sér.
Það var orðið svolítið haustlegt þegar við amma tíndum sólberin, rigning og smá kalt. Svo kom þetta fallega síðsumarveður sem við höfum fengið að njóta undanfarna daga og þá fannst krökkunum mínum voða gaman að tína rifsber í eftirmiddagssólinni í garðinum okkar. Ríflega helmingur berjanna fór reyndar beina leið upp í munn, en að lokum áttum við akkúrat nóg í baksturinn.
Mamma á uppskrift að tertudeigi sem mér finnst sérlega góð. Uppistaðan er haframjöl, gróft spelt og möndlur. Þetta deig er í rauninni hægt að nota með hvaða ávöxtum eða berjum sem manni dettur í hug að prófa. Við höfum ótal sinnum gert bláberjapæju á þennan hátt, hér eru góðar leiðbeiningar. Svo er líka hægt að nota hindberjasultu og frosin hindber, eða rabarbara eða annað gotterí. Mér finnst mikil stemmning í því að nota ber úr berjamó eða úr garðinum ef ég á þau til. En svo eiga stórmarkaðirnir alltaf til frosin ber, ég kaupi stundum frosin sólber í Hagkaup, og læt mig dreyma um síðsumarsólina.

Ég hef ekkert farið í berjamó í ár, svo berjauppskeran mín kemur úr garðinum í þetta sinn.
Framkvæmdin var einföld. Við hreinsuðum berin og settum svo ½ kg af berjum í pott og hituðum í smá stund með kókospálmasykri, því hann er svo dásamlegur á bragðið og dregur fram dökku bragðtónana í berjunum. Svo skellti mamma í tertudeigið góða, þjappaði ¾ af deiginu í botninn á tertuformi, síðan helltum við berjablöndunni yfir og að lokum muldum við restina af deiginu yfir.
Nýbakaður berjadraumur er bestur borinn fram með uppáhalds ísnum eða þeyttum rjóma eða sýrðum rjóma. Við mæðgur höldum upp á sýrðan hafrarjóma og þeyttan kókosrjóma.
Berjablanda
- ½ kg ber (fersk eða frosin)
- 170g kókospálmasykur (hægt að hafa meira eða minna eftir smekk)
Setjið ber og sykur í pott, stillið á háan hita og hrærið stöðugt í um 1 mín. Takið pottinn af hellunni og hrærið aðeins.
Tertudeig
- 100g lífrænt spelt
- 140g haframjöl
- 80g möndlur eða heslihnetur, malaðar
-
90g kókospálmasykur
- 1 tsk kanill
- 1 tsk sjávarsalt
- 120 ml kókosolía
Setjið þurrefnin í skál og blandið.
Bætið kókosolíunni út í og hnoðið þar til deigið klístrast saman.
Takið frá ¼ af deiginu fyrir mulning.
Þrýstið ¾ af deiginu í botninn á 23 cm kökuformi.
Hellið berjablöndunni yfir botninn.
Myljið restina af deiginu yfir.
Bakið í miðjum ofni á blæstri við 190°C í 20 - 25 mínútur.
Gott er að leyfa pæjunni að kólna aðeins og stífna áður en þið njótið hennar með góðum ís eða rjóma.

Njótið!