Bleikar pönnsur
Pönnukökur eru stundum bakaðar hér um helgar. Til að lífga upp á baksturinn prófuðum við að bæta rauðrófusafa út í deigið, og fengum svona líka fagurbleikar pönnukökur. Yngstu fjölskyldumeðlimirnir voru mjög ánægðir með það.

Pönnsurnar eru án eggja og mjólkur og henta því bæði þeim sem eru með ofnæmi og þeim sem velja plöntufæði. Við mæðgur notum hráefni úr lífrænni ræktun í uppskriftina, eins og ávallt þegar hægt er. Lífrænt ítalskt spelt frá Himneskt er uppistaðan í þessum dásamlegu pönnsum.
Deigið er ögn viðkvæmara en hefðbundið deig þar sem það er eggjalaust. Trixið er að setja deigið í blandara í ½ mínútu, þannig helst deigið vel saman.


Fyrir lífrænar og vegan langömmu pönnsur án bleika litarins kíkið á þetta blogg hér:
Klassískar pönnukökur
Bleikar pönnukökur
- 3.5 dl spelt
- 5.5 dl haframjólk
- 1 dl rauðrófusafi
- ½ tsk sjávarsalt
- 2 msk kókosolía
- 3 msk kókospálmasykur
Setjið smá olíu á pönnu, svo deigið á og veltið pönnunni fram og tilbaka svo deigið dreifist.
Bakið í 1-2 mín á hvorri hlið.
Gott að bera fram með uppáhalds þeytta veganrjómanum og ferskum berjum, eða bara rúlla upp með hrásykri á gamla mátann.