Blómkálsmús með krydduðu góðgæti
Nýjasta uppáhald okkar mæðgna er þessi dásamlega og bragðmikla blómkálsmús. Við höfum haft hana sem undirstöðu í matinn nokkuð oft og berum hana fram með því sem okkur langar í hverju sinni, sem er ekki alltaf það sama. Best finnst okkur að hafa nóg af góðu grænmeti, eitthvað próteinríkt eins og t.d. baunir og svo er dásamlegt að hafa eitthvað súrsætt eins og sultaða laukinn, sem er líka svo fallega bleikur á lit. Oft fær niðurskorið avókadó að vera með. Þessi réttur er mjög dæmigerður fyrir það sem okkur mæðgum finnst gott að borða, nóg af góðu grænmeti og fullt af góðu bragði, töfrað fram úr því sem er til í ísskápnum.
Fljótlegt, gómsætt og hollt
Þessi einfalda máltíð er tilbúin á 20-30 mínútum. Blómkálið er skorið niður og bakað í ofni, og á meðan sultum við laukinn og snöggsteikjum baunirnar og grænmetið. Svo maukum við blómkálið og þá er allt tilbúið.
Ofnbakað blómkál
Sultaður rauðlaukur - svo fallega bleikur
Allt tilbúið

Blómkálsmús með krydduðum kjúklingabaunum, grænmeti og sultuðum lauk
Blómkálsmús
- 2 blómkálshöfuð, skorin í frekar litla bita
- sjávarsalt og pipar
- 2-3 msk ólífuolía eða jurtasmjör
Hitið ofninn í 180°C
Setjið blómkálsbitana á bökunarpappír í ofnskúffu og kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar.
Gott að skvetta smá olíu yfir og 1 msk af vatni.
Bakið við 180°C í um 15 mín eða þar til blómkálið er orðið mjúkt. (Gott að undirbúa meðlætið á meðan blómkálið bakast).
Setjið blómkálið í matvinnsluvél ásamt ólífuolíu eða jurtasmjöri og maukið þar til verður að mús.
Kryddaðar kjúklingabaunir
- 1 msk curry paste
- 1 dós kjúklingabaunir
- smá olía til að steikja upp úr
Setjið smá olíu á pönnu og bætið karrImaukinu út á og hrærið því saman við olíuna.
Sigtið vatnið frá kjúklingabaununum og bætið þeim út á, steikið í 3-4 mín.
Grænmeti
- ½ spergilkálshöfuð, skorið í litla bita
- 3 gulrætur, skornar í þunnar sneiðar
- smá olía til að steikja upp úr
Hitið olíu á pönnu og steikið grænmetið í nokkrar mínútur.
Sultaður laukur
- 1 rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
- 1 sítróna (lífræn), skorin í sneiðar
- 2 msk eplaedik, lífrænt
- 2 msk vatn
- 2 msk hlynsíróp
- 2 msk sítrónusafi
- ½ tsk sjávarsalt
Setjið laukinn í krukku með sítrónunni.
Hellið restinni af uppskriftinni yfir, setjið lokið á og hristið. Látið standa í smá stund.
Geymist í kæli í heilan mánuð.
Njótið!
