Bolludags bollur

Amma Hildur bakaði alltaf gerbollur á bolludaginn, innblásnar af sænskum bollum. Á milli setti hún rifið marzípan, eplamús, sultu og rjóma. Okkur fannst þessar bollur alveg dásamlega góðar og höfum alltaf verið meira fyrir gerbollur en vatnsdeigsbollur.
Við mæðgur höldum því í fjölskylduhefðina og bökum mjúkar bollur úr lífrænu spelti.
Hægt er að leika sér endalaust með fyllinguna, flestir eiga sitt uppáhald. Við setjum rifið marzípan, lífræna eplamús frá Himneskt (svo dásamlega fersk/sæt/súr), fersk jarðarber og jurtarjóma inn í bollurnar okkar. Og svo súkkulaði á toppinn. Oft bræðum við dökkt súkkulaði til að hella yfir toppinn en það má líka skella í glassúr.
Rifið marzipan, fersk ber og eplamús!
Jurtarjómi og glassúr. Fullkomnun!
Bolludagurinn kemur bara einu sinni á ári og um að gera að njóta í botn!
Speltbollur
- 475 ml jurtamjólk
- 50g kókosolía eða vegan smjör
- 3 msk (um ½ dl) hlynsíróp
- 1 pk (11g) þurrger
- 1 tsk vanilla
- ½ tsk sjávarsalt
- 600g fínt spelt eða heilhveiti
Skerið jurtasmjörið í litla bita og setjið í pott með jurtamjólkinni, hlynsírópinu og vanillu . Hrærið í á meðan smjörið bráðnar, takið af hellunni og kælið svo þessi blanda verði um 37°C.
Þegar blandan hefur kólnað niður í 37°C hellið henni í hrærivélaskál, stráið þurrgerinu yfir og látið standa í um 15 mín.
Blandið speltinu og saltinu út í og hrærið saman. Látið standa á frekar hlýjum stað með viskastykki yfir skálinni svo það geti hefast í um 20-30 mín .
Þar sem þetta deig er klístrað þá finnst okkur gott að nota ískúluskeið til að móta bollurnar sem eru settar á bökunarpappír á ofnplötu . Uppskriftin gefur um 15 bollur .
Látið bollurnar hefast aftur í svona 20 mín á plötunni áður en þær eru settar í ofninn.
Bakast við 190°C í um 20 mínútur
.
Glassúr
- 2 msk vatn
- 5 tsk kakóduft
- 2,5 dl flórsykur
- 1 msk kókosolía/vegan smjör
Njótið!