Börger með fersku salsa
Á góðum sumardögum finnst okkur svo gaman að grilla eitthvað gott. Okkur finnst nauðsynlegt að hafa eitthvað ferskt með grillmatnum til að skapa jafnvægi. Til dæmis finnst okkur æði að útbúa ferskt salsa þegar við grillum borgara.
Í þenna borgara völdum við Beyond Meat buff sem líkist kjöti og hentar bæði vegan, grænmetisætum og þeim sem vilja minnka kjötneyslu. Þær alætur sem hafa fengið svona borgara hjá okkur hafa verið mjög hrifnar. En endilega veljið ykkar uppáhalds grænmetisbuff í þennan borgara. Sumum finnst baunabuff betri en buff sem líkjast kjöti, það er smekksatriði.
Salsað gerir þennan borgara mjög sumarlegan, svo ferskt og bragðgott. Það tekur í rauninni ekkert lengri tíma að græja salsa heldur en að skera niður grænmeti á borgara, salsað er það eina sem þarf að skera niður í þessa uppskrift. Ef veðrið er gott finnst okkur næs að skera grænmetið niður úti á palli á meðan við bíðum eftir að grillið hitni.

Salsa
- 10 kirsuberjatómatar
- ½ rauð paprika
- ½ gul paprika
- 1 avókadó
- ½ ferskur rauður chili
- 1 sítróna, hýðið af henni og safinn
- 2 msk ferskur kóríander, smátt saxaður
- 2 tsk hlynsíróp
- 1 tsk sjávarsaltflögur
Skerið kirsuberjatómatana, paprikurnar, avókadóið og chili í litla bita.
Rífið hýðið á sítrónunni á rifjárni og kreistið safann úr henni og setjið yfir grænmetið ásamt kóríander, hlynsírópi og sjávarsaltflögum.
Börger m/salsa
- Beyond meat burger, eða þinn uppáhalds vegan borgari
- Hamborgarabrauð
- Spicy mayo - keypt eða heimagert ( uppskrift frá okkur hér og önnur hér )
- BBQ sósa - keypt eða heimagerð ( uppskrift frá okkur hér )
- Ferskt Salsa - heimagert uppskrift að ofan
- Grænar spírur eða kál
Kveikið á grillinu og ef það er með hitastilli þá stillið þið það á 300°C
Græjið salsa eftir uppskrift að ofan.
Setjið borgarann á grillið. Við vorum með beyond meat borgara og grilluðum hann 4 mín á hvorri hlið.
Skellið brauðinu á í 10/15 sek í lokin.
Setjið væna matskeið af spicy mayo á botnbrauðið, síðan borgarann, svo slatta af salsa, þar á eftir spírur og endið á að setja væna matskeið af uppáhalds bbq sósunni ykkar í lokið á borgarabrauðinu.
Hlakkið til að njóta!