3 fljótlegir sælkeragrautar
Smá skipulag einfaldar oft lífið, sérstaklega þegar maður hefur ekki allan tímann í heiminum. Ég elska til dæmis að borða góðan mat, en því miður má ég ekki alltaf vera að því að nostra við matinn eins mikið og ég vildi. Í leit minni að jafnvægi er ég búin að koma mér upp nokkrum skipulags trixum sem einfalda lífið og uppfylla þörfina fyrir fljótlegar og saðsamar máltíðir, sem eru samt smá dekur fyrir mig. 5 daga chiagrautur er eitt af þessum trixum.
Fyrripart dags uppfyllir chiagrautur mjög margt af því sem ég er að leita að. Hann er saðsamur og gefur endingargóða orku svo ég þarf ekki að vera að fá mér snarl í tíma og ótíma.
Og svo er hann líka algjört gúmmilaði, sem er auðvitað aðalatriðið fyrir sælkerann í mér, sem vill helst ekkert borða nema það sé afbragðsgott.
Ég nota uppskrift frá mömmu sem er mjög einföld og geri stóran grunnskammt til að eiga í ísskápnum í um 5 daga. Svo fæ ég mér mismunandi útgáfu í hvert skipti. Oft hræri ég hreint kakóduft út í grautinn og fæ mér hnetusmjör og perubita út á. Það er algjört nammi. Eða stappa saman frosin hindber, engifersafa og eplabita í bleikt chutney til að setja út á grautinn, hrikalega gott! Ef ég er að drífa mig sérlega mikið skelli ég bara ferskum berjum og möndlum út á og smá haframjólk. Grautinn er hægt að borða strax eða taka með í nesti, t.d. í krukku m loki.
Ég vel chiagraut fram yfir morgunkorn eða ristað brauð hvenær sem er. Alveg jafn fljótlegt og orkan endist lengur.

Fyrir allnokkrum árum tók ég eftir því að chiagrauturinn sem ég fékk þegar ég var í heimsókn hjá mömmu var alltaf aðeins betri en grauturinn sem ég gerði heima. Þá kenndi hún mér leynitrixið sitt, sem er að hræra grautinn í hrærivél. Ég á það til að stytta mér leið í eldhúsinu ef ég get og lengi vel leit ég á það sem óþarfa vesen að ná í hrærivélina úr skápnum fyrir grautargerðina. En svo rann upp fyrir mér að það var auðvitað ekkert meira vesen og grauturinn er vissulega betri og fær léttari áferð.
Ofur einfalt að skella chiafræjum og jurtamjólk í hrærivélina
Hrærivélin sér um þetta
Viku skammturinn tilbúinn
Hér kemur fyrst grunn uppskriftin og svo 3 mismunandi útfærslur af góðum graut sem fljótlegt er að töfra fram úr erminni þegar tilbúinn chiagrautur bíður í ísskápnum.
Hildur
Chiagrautur fyrir 5 daga - grunn uppskrift
- 2 dl chiafræ
- 6 -7 dl jurtamjólk (t.d. kókosmjólk og möndlumjólk til helminga)
- 1 tsk vanilluduft eða dropar
- ¼ tsk sjávarsalt
Veljið jurtamjólk sem ykkur hugnast best. Kókosmjólk gefur rjómakenndustu áferðina og er í uppáhaldi hjá mér.
Setjið innihaldsefnin í skál og hrærið saman með skeið, eða fyrir léttari áferð: hrærið í hrærivél.
Geymið í loftþéttu íláti inni í kæli. Grauturinn geymist í 5 daga ef notuð er jurtamjólk úr fernu, en 3 daga ef notuð er heimagerð jurtamjólk.
Gefur 5-6 skammta af chiagraut.
3 góðir chiagrautar
Súkkulaði og peru grautur fyrir einn
- 1 ½ dl tilbúinn chiagrautur (u.þ.b.)
- 1-2 tsk hreint kakóduft
- 1 msk jurtamjólk
- ½ - 1 msk hnetusmjör
- ½ pera, skorin í bita
- 1 daðla ef vill
Setjið 1 skammt af chiagraut í skál og hrærið út í hann kakódufti og jurtamjólk með skeið eða gaffli þar til grauturinn er orðinn súkkulaðibrúnn.
Berið fram með hnetusmjöri og peru.
Ef ykkur langar í sætara bragð má skera niður eina döðlu og strá yfir.

Hindberja og engifer grautur fyrir einn
- 1 ½ dl tilbúinn chiagrautur
- 1 dl hindber, fersk eða frosin
- ½ epli, skorið í bita
- 1 tsk engiferskot
- ¼-½ banani, skorinn í sneiðar
Setjið einn skammt af chiagraut í skál, berið fram með hindberjamaukinu og bananasneiðum.

Einfaldur með berjum
- 1 ½ dl tilbúinn chiagrautur
- fersk ber (bláber, hindber, jarðarber, kirsuber....)
- möndlur
- jurtamjólk
Hellið smá af uppáhalds mjólkinni ykkar yfir og njótið!

Njótið