Dal
Dal hefur lengi verið uppáhalds maturinn minn. Dal er fyrsti rétturinn sem ég lærði að elda og örugglega sá sem ég hef oftast borðað yfir ævina. Einu sinni var ég meira að segja með dal á jólunum.
Hildur
Dal finnst mér fallegt orð. Það er upprunnið úr Sanskrit og er dregið af sögninni "að kljúfa". Dal er notað sem samheiti yfir alls kyns þurrkaðar baunir sem hafa verið klofnar í tvennt og er jafnframt notað yfir rétti sem eldaðir eru úr slíkum baununum.
Á Indlandi, í Pakistan, Nepal, Sri Lanka, Bangladesh og á þeim slóðum er dal mjög algengur hversdags matur. Útfærslurnar eru óteljandi, enda hugtakið nokkuð opið. Til eru heilu matreiðslubækurnar sem innihalda ekkert nema uppskriftir að dal, krydduðu á sinn hátt einkennandi fyrir hvert landsvæði fyrir sig. Við grænkerarnir hér á norðurslóðum leitum oft innblásturs í matarmenningu þjóða sem hafa lengri og sterkari hefð fyrir grænmetisfæði. Réttir úr baunum skipa þar stóran sess, enda eru baunir næringarrík, saðsöm og ódýr fæða.

Ég borða mikið af baunum og linsum og finn að það gerir mér gott. Þær eru umhverfisvænn og hagkvæmur próteingjafi. Góður matur fyrir þarmaflóruna.
Landlæknisembættið mælir líka með aukinni neyslu á baunum og linsum:
"Flestir Íslendingar hefðu heilsufarslegan ávinning af því að auka neyslu á fæðu úr jurtaríkinu, s.s. á grænmeti, ávöxtum, berjum, hnetum, baunum, linsum, fræjum og heilkornavörum. Aukin neysla á jurtaafurðum og minni neysla dýraafurða mun auk þess hjálpa til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og vernda þannig umhverfið".
Ég vel lífrænt ræktaðar linsur og baunir þegar ég get, mér finnst baunir ekki dýrar miðað við næringarþéttni og er því alveg til í að splæsa í linsur úr lífrænni ræktun.
En þá er það uppskriftin mínDal er auðvitað hægt að elda úr hverskyns klofnum baunum/linsum. Uppáhaldið mitt eru rauðar linsur því þær eru svo fljótsoðnar, miðað við margar aðrar tegundir.
Dal ber ég oftast fram með lífrænum basmati hrísgrjónum og raitu. Raita er einföld jógúrtsósa með hvítlauk og rifnum gúrkum. Mér finnst hrein vegan jógúrt mjög góð í raitu.
Daginn eftir breyti ég síðan afgangnum í linsubaunasúpu, þá þynni ég dalið með vatni og set vel af sítrónu og engifersafa með.
Mér finnst best að byrja á því að skella rótargrænmeti í ofninn og elda svo dalið. Á meðan dalið mallar sýð ég hrísgrjón og hræri í raitu og legg svo á borð. Ef ég geri þetta í þessari röð þá er allt tilbúið á svipuðum tíma.
Fyrir 4
Rótargrænmeti
- u.þ.b. 500g rótargrænmeti (sæt kartafla, kartöflur, rauðrófur eða gulrætur - veljið 1 eða fleiri)
- 1 msk kókosolía
- ½ tsk sjávarsalt
- ½ dl vatn
Dal
- 1 meðal stór laukur
- 2 hvítlauksrif
- 2 msk engiferskot (engifersafi)
- 1 ½ msk Garam Masala eða gott Curry paste
- ½- 1 tsk túrmerik
- ⅛ tsk svartur pipar
- 1 msk kókosolía
- 1 lítið blómkálshöfuð eða ½ stórt, skorið í munnbita
- 250g rauðar linsur, lífrænar (½ poki)
- 1 dós kókosmjólk (400ml)
- 400-500 ml vatn
- 1 ½ tsk sjávarsalt
- 4 tsk sítrónusafi
- ferskur kóríander, ef vill
Byrjið á að saxa niður lauk og hvítlauk, hitið í 2 mín í botni pottsins í olíunni, með engiferskoti, karrýblöndu, túrmerik og pipar. Þetta er gert til að opna bragðið af kryddunum. Bætið svo blómkálsbitunum út í, því næst linsunum ásamt kókosmjólkinni og vatninu.
Látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann þannig að allt malli í rólegheitum í u.þ.b. 20mín - eða þar til blómkálið er orðið mjúkt og linsurnar orðnar að smá kássu. Hrærið í af og til og fylgist með að brenni ekki í botninn.
Á meðan dalið mallar í pottinum er tilvalið að sjóða hrísgrjón og hræra í raítu.
Í lokin, þegar dalið er tilbúið, bætið þá saltinu og sítrónusafanum út í.
Smakkið dalið, ef ykkur finnst það mega vera bragðmeira bætið við smá auka salti, sítrónusafa eða ólífuolíu.
Setjið ofnbakaða grænmetið út á dalið og stráið ferskum kóríander yfir ef þið eigið. Berið fram með basmati grjónum og raitu.
Raita
- 1 bolli hrein jógúrt (ég nota vegan jógúrt)
- ⅓ agúrka, skorin í bita eða rifin með rifjárni
- 1 hvítlauksrif, pressað
Blandið öllu saman í skál.
Njótið!