Dukkah og Gomasio
Dukkah er blanda af hnetum, fræjum og kryddum sem okkur mæðgum finnst frábært að eiga til að strá yfir allskonar mat. Það má eiginlega segja að dukka sé leynivopnið sem við notum til að gera góðan mat enn meira spennandi.
Dukkah gefur gott bragð, góða áferð og smá "kröns" og setur bara algjörlega punktinn yfir i-ið.
Við útbúum fulla krukku af dukka og eigum í kryddskápnum til að nota óspart þegar hentar.
Önnur dásamleg blanda til að strá yfir mat er Gomasio, í því eru m.a. sesamfræ, salt og krydd.
Okkur langar að gefa ykkur uppskriftir bæði að Dukkah og Gomasio.
Dukkah passar mjög vel út á allskyns grænmeti. Til dæmis frábær út á salöt, ofnbakað grænmeti, pottrétti, gott að strá
yfir hummus, eða yfir góðgæti í vefju, eða í góða búdda skál. Svo er
mjög gott að dýfa mjúku pítabrauði í góða ólífuolíu og dukkah.
Hér eru nokkrar ólíkar uppskriftir sem við myndum nota þessa dukkah blöndu óspart út á, svona til að gefa ykkur hugmynd um hversu fjölbreytt notkunin er:
Vefja með grilluðu eggaldin og tahinisósu
Blómkálsmús m krydduðu góðgæti
Gomasio blandan okkar inniheldur wasabi og þara ásamt sesamfræjum ofl. og passar betur við rétti innblásna af japanskri eða asískri matargerð. Hrísgrjónaréttir, núðlusúpur, tófú marinerað í tamari eða sojasósu og bara allskonar matur sem er kryddaður í þá átt. Til dæmis:
Þess vegna langar okkur að gefa ykkur báðar uppskriftirnar, okkur finnst svo gott að eiga blöndur sem passa við ólík tilefni.
DUKKAH
- 1 dl pístasíuhnetur
- 1 dl möndlur
- 1 dl heslihnetur
- 1 dl pekanhnetur
- 1 dl sesamfræ
- 1 dl kókosmjöl
- 2 msk kóríanderfræ
- 2 msk cuminfræ
- 1 msk fennelfræ
- 2 tsk sjávarsaltflögur
- smá nýmalaður pipar
Hitið ofninnn í 170°C.
Setjið hneturnar og sesamfræin í ofnskúffu, dreifið úr þeim og ristið í um 5 mín.
Hrærið í blöndunni og ristið svo áfram í 5 mín.
Takið út og látið kólna.
Þurrristið kókosmjölið á pönnu ásamt kóríander, cumin og fennelfræjunum.
Byrjið á að grófmala hneturnar í matvinnsluvél og setjið síðan restina út í og malið allt saman örlítið fínna, en passið þó að þetta verði ekki að mauki.
Gomasio
- 1 dl svört sesamfræ
- 1 dl möndlur
- 3 nori þara blöð
- 1 msk sjávarsalt flögur
- 2 tsk wasabi duft
- 1 tsk chili flögur
Hitið ofninnn í 170°C.
Setjið hneturnar og sesamfræin í ofnskúffu, dreifið úr þeim og ristið í um 5 mín.
Hrærið í blöndunni og ristið svo áfram í 5 mín.
Takið út og látið kólna.
Setjið möndlurnar í matvinnsluvél og malið gróflega. Bætið svo restinni af uppskriftinni út í og malið allt saman.
Passið bara að mala ekki of lengi svo þetta verði ekki að mauki.
Njótið