Fyllt hátíðar grasker
Hnetusteik er líklega algengasti hátíðarréttur grænkera. Sjálfar framreiðum við hnetusteik nokkrum sinnum á ári og okkur finnst voðalega gaman að leika okkur að því að hafa hana aldrei alveg eins. Undanfarið hefur verið mjög vinsælt að baka hnetusteikina í smjördeigi, sem gefur steikinni hátíðlegan brag. Í ár ætlum við að nota hnetusteik sem fyllingu í fallegt butternut grasker, við erum búnar að prófa og það kom ljómandi vel út, mjög skemmtileg tilbreyting. Þessi útfærsla hentar líka betur fyrir þá sem þola illa hveiti og glúten.
Fallegur hátíðarréttur
Þetta er mjög einfaldur réttur að útbúa. Fljótlegast er að nota tilbúna hnetusteik, við mælum auðvitað með hnetusteikinni frá Gló sem fæst bæði á Gló og í frystinum í Bónus og Hagkaup. En að sjálfsögðu er best að velja þá steik sem ykkur líkar best, enda úrvalið orðið rosalega gott. Svo er alltaf hægt að útbúa sína eigin, hér eru t.d. nokkrar uppskriftir frá okkur:
Innbökuð hnetusteik Hnetusteik með linsum Hnetuturnar með rótarmús Myndband: Hnetusteik

Aðferðin
Skerið graskerið í tvennt. Hreinsið graskersfræin innan úr. Notið skeið og skafið aldinið innan úr graskerinu til að gera pláss fyrir hnetusteikina. Snúið graskerinu við og skerið þunna sneið af hýðinu svo graskerið verði stöðugt í ofninum (sjá mynd). Þjappið hnetusteikinni niður í graskerið.

Fyllt hátíðar grasker
- 400g hnetusteik
- 1 butternut grasker
- 50g saxaðar heslihnetur
- 1 dl granateplakjarnar
- 1 vorlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
Skerið graskerið í tvennt.
Hreinsið graskersfræin innan úr.
Notið skeið og skafið aldinið innan úr graskerinu til að gera pláss fyrir hnetusteikina.
Snúið graskerinu við og skerið þunna sneið af hýðinu svo graskerið verði stöðugt í ofninum (sjá mynd).
Þjappið hnetusteikinni niður í graskerið.
Bakið við 175°c í ca 35-45 mín, eða þar til graskerið sjálft er orðið bakað.
Gott er að hafa álpappír yfir graskerinu fyrstu 20 mín svo hnetusteikinbrenni ekki.
Skreytið með ristuðum, söxuðum heslihnetum, granateplakjörnum og vorlauk.
Njótið!