Fylltar bolludags bollur
Okkur mæðgum finnst skemmtilegast að baka okkar eigin bollur fyrir bolludaginn. Þá getum við notað lífrænt ræktað hráefni í baksturinn og haft fyllinguna eftir okkar höfði. Við erum hrifnastar af mjúkum gerbollum og bökum úr lífrænu spelti.
Í þessa útgáfu setjum við súkkulaði inn í deigið áður en við bökum bollurnar. Svo berum við bollurnar fram með niðurskornum jarðaberjum og þeyttum hafrarjóma. Lokið má skreyta með flórsykri eða glassúr.
Fyrir fleiri vegan bollu uppskriftir kíkið hér:
Súkkulaði og hnetukaramellu bollur
Bolludags bollur með marzípan og glassúr
Fylltar bollur
- 3 dl volgt vatn, ca 37/40°C
- 50g pressuger
- 100g jurtasmjör/smjörlíki
- 3 msk lífrænn hrásykur
- 1 tsk vanilla
- ½ tsk sjávarsaltflögur
- ½ kg fínt spelt
- Fylling:
- 2 bitar 71% súkkulaði inn í hverja bollu
Skerið pressugerið í bita og setjið út í vatnið ásamt sykri og vanillu, hrærið svo þetta leysist upp.
Bræðið jurtasmjörið við vægan hita, kælið svo það sé svona um 37/40°C , hellið út í gerblönduna.
Bætið speltinu út í í nokkrum skömmtum, hnoðið vel saman, setjið deigið í skálina og látið hefast á volgum stað í um 30 mín.
Takið deigið úr skálinni og hnoðið aftur, skiptið deiginu í 18 kúlur sem þið fletjið út (hægt að nota kökukefli) svo hver og ein verði ca ½ cm þykk og um 10 cm í þvermál, þetta verða eins og litlar pönnukökur.
Setjið 2 súkkulaði bita í miðjuna á hverri “pönnukökunni”, brjótið kantana yfir súkkulaðið og lokið, snúið sárinu niður og látið bollurnar hefa sig aftur í um 25/30 mín á bökunarplötu.
Bakið við 200°c í 15 mínútur.
- Inn í:
- jarðaber, niðursneidd
- þeyttur jurtarjómi, AITO hafrarjómi þeytist mjög vel í hrærivél
- Ofan á:
- flórsykur
- uppskrift að glassúr finnið þið hér
