Græn vefja
Okkur mæðgum finnst heimagerðar vefjur vera bestu vefjurnar. Við gerum þær þegar við höfum tíma/nennum, en auðvitað kaupum við oft vefjur líka.
Vefjur er hægt að nota á svo margan hátt. Sniðugt er að breyta
afgöngum frá deginum áður í nýja máltíð með því að setja inn í vefju með
góðri sósu. Til dæmis er frábært að nýta afgangs pottrétt, buff eða
ofnbakað grænmeti og baunir.
Okkur finnst síðan skemmtileg tilbreyting að hafa vefjurnar fagurgrænar á litinn. Krökkunum finnst líka gaman að borða grænar vefjur og svo fáum við smá auka spínat með í kaupbæti.
Uppskrift að heimagerðum grænum vefjum er hér neðst.

Hér eru nokkrar tillögur að fyllingu í góða vefju
Tahini sósa, grillað grænmeti og hnetur

Mexíkó innblásnar vefjur með svörtum baunum, salsa og guacamole



Grænar Vefjur
- 250 g spelt
- 1 tsk lyftiduft
- 2 msk ólífuolía eða vegan smjör
- ½ tsk salt
- 1 vænn hnefi spínat
- 120 ml heitt vatn
Byrjið á að setja spínat og vatn í blandara og blanda þar til spínatið er vel tætt niður.
Setjið spelt, lyftiduft, salt og smjör/olíu í skál og blandið saman.
Bætið spínatvatninu út í skálina og klárið að blanda þar til þetta verður að 1 kúlu (ath að hnoða deigið ekki of mikið, það er galdurinn svo það verði lungna mjúkt og meðfærilegt).
Látið deigið hvíla í 30 mín.
Skiptið deiginu í 8 parta og fletjið út í tortillur sem þið þurrsteikið á frekar heitri pönnu, ca ½
mín á hvorri hlið.
Staflið tortillunum ofan á hvor aðra inn í viskastykki svo þær haldi mýktinni þegar búið er að steikja þær.
Það má frysta þær og þá er gott að setja bökunarpappír á milli.
Njótið!