Grænar skrímsla muffins
Um helgar finnst okkur gaman að baka með krökkunum. Þau eru voða hrifin af muffins og eiga hvort um sig sína uppáhalds tegund. Sá eldri heldur mest upp á Appelsínu & chia muffins og sú yngri er meira fyrir Súkkulaði & kjúklingabauna muffins. En okkur finnst alltaf gaman að gera eitthvað nýtt og hleypa ímyndunaraflinu á flug. Hér er ein skemmtileg tilraun sem við gerðum.
Grænar skrímslamuffins
Í staðinn fyrir að nota matarlit til að ná græna litnum maukuðum við spínat og fengum þessar fínu grænu muffins.
Appelsína og kókos yfirgnæfa spínatbragðið alveg og krakkarnir voru mjög ánægð með þessa tilraun.

Við notuðum bláber til að gera fyndin augu á skrímslin.
Eins og sést urðu muffinsin fagurgræn að innan
Næst ætlum við að færa kökurnar aðeins neðar í ofninn síðustu mínúturnar til að minnka brúna litinn á toppnum, þá verða þær örugglega ennþá flottari.
Börnin voru mjög ánægð með þessa tilraun og muffinsin brögðuðust ljómandi vel. Fersku bláberjaaugun voru líka góð með og við bárum muffinsin fram með skál af bláberjum.

Grænar skrímsla muffins
- 1 dl vatn + 2 msk chiafræ
- hýðið af einni appelsínu (helst lífrænni)
- 1 dl ferskur appelsínusafi (safi úr 1 stórri eða 2 litlum)
- 1 dl jurtamjólk (t.d. möndlu)
- 3 msk jómfrúarólífuolía
- 1 dl spínat (mjög vel þjappað í dl mál)
- 1 ½ dl hrásykur
- 1 tsk vanilludropar
- 3 dl spelt
- 2 dl kókosmjöl
- ½ tsk matarsódi
- 1 tsk lyftiduft
- ¼ tsk sjávarsaltflögur
Forhitið ofninn í 175°C og hafið muffinsformin tilbúin. Gott er að setja pappaform í muffinsformin, eða smyrja með olíu.
Raspið hýðið af einni appelsínu (eða tveim ef þær eru litlar), gott að muna að hafa bara ysta lagið með, ekki þetta hvíta undir. Kreistið safann úr appelsínunni (eða tveim ef mjög litlar) þar til þið hafið fengið 1 dl af safa.
Setjið allan vökvann (jurtamjólk, appelsínusafa og olíu) í blandara ásamt spínatinu og maukið vel þar til orðið að grænum vökva.
Blandið saman í eina skál: græna vökvanum, appelsínuhýðinu, útbleyttum chiafræjunum, hrásykri og vanilludropum.
Blandið þurrefnum saman í aðra skál: spelt, kókosmjöl, matarsódi, lyftiduft, sjávarsalt.
Hrærið þurrefnunum létt út í hina skálina. Ekki hræra of mikið, bara nóg til að allt blandist vel saman í graut.
Hellið í u.þ.b. 12 muffinsform og setjið inn í 175°C heitan ofn, í miðjuna. Bakið í 25-30 mín (í okkar ofni er 27 mín yfirleitt fullkomið, en ofnar geta verið örlítið misjafnir). Fylgist með síðustu 10 mín, ef kökurnar eru að verða of dökkar má setja plötuna neðar í ofninn síðustu mínúturnar.
Njótið vel!
