Hrásalat
Á meðan íslenska grænmetisuppskeran er til í búðum erum við mæðgur duglegar að prófa okkur áfram með allt þetta dásamlega hráefni. Gulrætur, spergilkál, blómkál, kartöflur, kúrbít, hnúðkál og allt hitt góðgætið.
Hrásalat er klassískt meðlæti sem passar með allskonar mat. Þetta hefðbundna þar sem uppistaðan er hvítkál, gulrætur og mayones stendur alltaf fyrir sínu. Í þetta sinn langaði okkur að prófa að gera aðeins frísklegri dressingu, slepptum mayoinu og notuðum ólífuolíu, sinnep og sítrónusafa. Og svo ristuðum við kryddaðar kasjúhnetur til að hækka gúmmelaði stuðulinn.
Við ákváðum að nota smá hnúðkál í uppskriftina þar sem við fáum oft hnúðkál úr garðinum hennar ömmu Hildar.
En ef þið eigið ekki hnúðkál er að sjálfsögðu hægt að sleppa því og nota bara meira af gulrótum eða hvítkáli.

Hrásalat
Grænmeti
- 400g hvítkál, skorið í þunna strimla
- 100g gulrætur, í þunnum strimlum eða spaghetti
- 100g hnúðkál, í spaghetti
- ¼ rauðlaukur, skorinn i þunnar sneiðar
- 30g kóríander, smátt saxaður
- 10g minta, smátt söxuð
Skerið grænmetið niður í þunna strimla.
Dressing
- ½ dl ólífuolía
- ½ dl sítrónusafi
- 1 tsk sinnep
- 1 hvílauksrif, pressað
- ½ tsk sjávarsalt og smá nýmalaður svartur pipar
Allt sett í krukku og hrist saman
Ristaðar hnetur
- 150g kasjúhnetur
- 1 msk ólífuolía
- 1 msk kókospálmasykur
- 2 tsk cuminfræ
- ½ tsk turmerik
Ristið kasjúhneturnar á pönnu.
Þegar þær eru farnar að brúnast og alveg að verða tilbúnar, bætið þá restinni af uppskriftinni á pönnuna.
Hrærið í svona 20 sek og þá eru hneturnar tilbúnar.
Kælið.
Blandið grænmetinu saman í skál og hellið dressingunni yfir.
Endið á að blanda kasjúhnetunum saman við.
