Hummus m/ rauðlauk og balsam
Hummus er eitt af því sem við mæðgur eigum nánast alltaf til í ísskápnum. Eftir öll þessi ár hefur okkur ekki enn tekist að fá leið á hummus. Kannski er það vegna þess að við gerum hann ekki alltaf eins, það er svo gaman að prófa nýtt bragð og nýja áferð. Ein af okkar uppáhalds útgáfum inniheldur steiktan rauðlauk og balsamgljáa. Þetta er svona hummus sem við getum næstum borðað eintóman upp úr krukkunni. (Kannski gerum við það þegar enginn sér til).
Góður hummus er í svona miklu uppáhaldi hjá okkur því það er hægt að nota hann á svo marga vegu. Sem álegg á brauð eða kex, sem ídýfu fyrir niðurskorið grænmeti og svo uppáhaldið okkar: gerir matarmikla skál (t.d. með bökuðu grænmeti/grjónum/próteini/salati) svo miklu meira djúsí. En hummusinn þarf líka að vera mjög góður.
Svo er hummus auðvitað frekar hollt álegg.
Baunir, tahini, ólífuolía... mmm....
Við notum lífrænar kjúklingabaunir frá Himneskt í hummusinn okkar. Þegar hummusinn er tilbúinn passar hann akkúrat í krukkuna, mjög þægilegt að geyma hann í tómri kjúklingabaunakrukku með loki inni í ísskáp.
Þið getið fundið fleiri hummus uppskriftir hér.
Hummus m/rauðlauk og balsam
- 2-3 rauðlaukar, í þunnum sneiðum
- 1 krukka kjúklingabaunir (3 ½ dl)
- 2 msk vatn (t.d. úr krukkunni)
- 2 msk tahini
- 3 msk sítrónusafi
- 1-2 hvítlauksrif, pressuð
- ½ - 1 tsk salt
- ¼ tsk cuminduft
- cayenne pipar af hnífsoddi (ef vill)
- 2 msk jómfrúar ólífuolía
- ½ tsk balsamgljái (eða hlynsíróp ef þið eigið ekki gljáa)
Byrjið á að steikja rauðlauk í smá olíu á pönnu við lágan hita í 10-15 mínútur.
Á meðan laukurinn mallar, setjið allt hitt hráefnið í matvinnsluvél og maukið þar til silkimjúkt og kekklaust.
Að lokum er steiktum lauknum bætt út í og maukaður saman við hummusinn, þið ráðið hvort þið hafið laukinn alveg maukaðan eða bara gróflega. Gott að taka smá steiktan lauk til hliðar til að setja ofan á hummusinn þegar hann er borinn fram.