Ilmandi berjapæja
Á þessum árstíma, á mörkum hausts og síðsumars, finnst okkur mæðgum voða notarlegt að baka ilmandi berjaböku. Við búum svo vel að eiga til smávegis af bláberjum eftir berjamó. Annars er oft hægt að kaupa íslensk bláber og svo er þessi uppskrift líka frábær með þeim berjum sem við eigum hverju sinni. Ilmurinn af nýbakaðri berjaböku er svo dásamlegur og minnir okkur á að hver árstíð hefur sinn sjarma.
Framkvæmdin er auðveld. Við byrjum á því að hnoða deigið saman, skipta því síðan í tvo hluta: ¾ fyrir botninn og ¼ fyrir hjörtun. (Það má líka alveg mylja deig yfir bökuna í staðinn fyrir að skera út hjörtu, við gerum það oftast, okkur fannst hjörtun bara svo krúttleg og krökkunum finnst gaman að skera þau út). Til að útbúa hjörtun setjum við ¼ af deiginu á milli tveggja bökunarpappírsblaða og rúllum út með kökukefli, og notum svo piparkökuform til að skera út. Við geymum síðan hjörtun í frysti/kæli á meðan við setjum pæjuna saman. (Sameinum afskurðinn frá hjörtunum við deigið sem fer í botninn). Nú þjöppum við ¾ deigsins í kökuform. Svo smyrjum við sultu yfir botninn, stráum berjum yfir og náum svo í hjörtun til að raða ofan á. Og þá er bakan tilbúin í ofninn.
Sultan fer á botninn
Berin ofan á sultuna
Hjörtun eða deig sett efst
Bakan komin úr ofninum
Bláberjapæja - botninn
- 100g lífrænt spelt
- 140g haframjöl
- 80g möndlur eða heslihnetur, malaðar
- 90g kókospálmasykur
- 1 tsk kanill
- 1 tsk sjávarsalt
- 120 ml kókosolía
Fyllingin
- 100g bláberjasulta (eða meira ef þarf)
- 120g bláber, t.d. frosin
Aðferð
Setjið þurrefnin í skál og blandið
Bætið kókosolíunni út í og hnoðið þar til deigið klístrast saman
Notið 1/4 af deiginu í hjörtun (setjið deigið milli tveggja bökunarpappírsblaða og rúllið deigið út með kökukefli, notið piparkökumót til að skera út hjörtu eða falleg mynstur)
Geymið hjörtun í kæli.
Þrýstið nú restinni af deiginu (3/4) í botninn á 23 cm kökuformi
Smyrjið sultu á botninn
Hellið bláberjum yfir sultuna
Leggið hjörtun nú yfir (eða myljið deig yfir)
Bakið við 190°C í 20 - 25 mínútur
Gott er að leyfa pæjunni að kólna aðeins og stífna áður en þið njótið hennar með þeyttum kókosrjóma
Kókosrjómi
Geymið dós af kókosmjólk inn í ísskáp. Feitari parturinn stífnar og skilst frá þynnri vökvanum. Takið feita hlutann (geymið restina til að nota í matreiðslu eða í smoothie) og hrærið hann aðeins upp áður en hann er settur í rjómasprautu með gashylki.
Njótið!
