Jólagrauturinn
Amma var oft með ris a la mand í eftirrétt á aðfangadagskvöld. Ég man að ég var aldrei neitt sérlega spennt fyrir grautnum, kannski var það vegna þess að mér fannst fullorðna fólkið svo óhemju lengi að borða, þegar mér fannst að önnur og brýnni mál ættu að fá forgang (...t.d. að opna gjafir!!). En núna finnst mér möndlugrauturinn voða góður. Við höfum reyndar haft það þannig undanfarin ár að við borðum möndlugrautinn í hádeginu á aðfangadag. Möndlugjöfin er yfirleitt eitthvað skemmtilegt spil sem börnin geta dundað sér við eftir hádegismatinn og léttir þeim aðeins biðina.
Ég elda stundum grjónagraut í kvöldmat svona hversdags. Ef ég nenni ekki að standa yfir pottinum og hræra geri ég ofnbakaðan graut, sem sér algjörlega um sig sjálfur. Ég ætla að nýta mér þá aðferð fyrir jólagrautinn, því ég bara veit að ég verð með nóg af öðrum verkefnum á aðfangadag.
Ég baka grautinn þá í potti inni í ofni, án þess að setja lok eða álpappír yfir. Það myndast fljótt svona himna yfir sem virkar eins og lok. Svo þegar grauturinn hefur verið inni í 40 mínútur þá tek ég pottinn út og geri gat á himnuna. Mér finnst alltaf jafn gaman að sjá tilbúinn graut undir.
(það er líka hægt að útbúa grautinn á hefðbundinn máta með því að láta grautinn malla á hellunni og hræra reglulega í).
Jólagrauturinn minn er síðan bara þessi venjulegi vegan grjónagrautur sem ég kæli og hræri svo hökkuðum ristuðum möndlum út í ásamt þeyttum jurtarjóma.
Jólagrautur með hökkuðum möndlum og rjóma

Ofnbakaður grautur
- 2 ½ dl basmati hrísgrjón, lífræn frá Himneskt
- 3 dl vatn
- 1 l sojamjólk, lífræn (hægt að nota aðra jurtamjólk)
- 1 msk vanilludropar
- ¼ tsk sjávarsalt
- kanilstöng (ef þið eigið, má alveg sleppa)
Hitið ofninn í 175°C
Skolið hrísgrjónin í sigti.
Setjið grjónin í pott ásamt vatninu og látið sjóða í nokkrar mínútur á hellu, þar til lítið vatn er eftir.
Hellið nú allri sojamjólkinni út í pottinn og látið suðuna koma upp, þannig að grjónin taki aðeins í sig vökvann.
Setjið nú pottinn (án loks) inn í forhitaðan ofninn (175°C) og látið bakast í u.þ.b. 40 mínútur.
Passið að nota pott eða eldfast mót sem þolir að fara í ofninn, t.d. ekkert með plasti á sem gæti bráðnað. Og ílátið verður líka að vera nógu stórt, ekki fylla alveg.
Fyrir grjónagraut:
Takið himnuna af og berið fram með jurtamjólk og kanilsykri.
Fyrir jólagraut:
Takið himnuna af og færið grautinn í skál. Gott að hrærar aðeins upp í honum svo hann verði ekki of þéttur.
Geymið skálina í kæli í amk 2 klst.
Jólagrautur
- 1 skammtur grjónagrautur
- 1 peli (ca 250ml) sojarjómi eða þinn uppáhalds þeytanlegi jurtarjómi (t.d. Alpro eða Soyatoo)
- 100g möndlur- ristaðar og saxaðar
- kirsuberjasósa ef vill
Saxið möndlurnar og ristið í ofni í smástund. Kælið.
Þeytið rjómann.
Takið grautinn úr kælinum, blandið möndlunum og þeyttum rjómanum varlega saman við.
Berið fram með kirsuberjasósu eða því sem ykkur þykir best. Sumir vilja kanilsykur eða bráðið súkkulaði.
Njótið!
* Ps. ykkur að segja þá stytti ég mér kannski leið og ber grautinn fram eins og grjónagraut og
hef þeyttan sojarjóma til hliðar fyrir þá sem vilja svoleiðis út á. Börnin mín eru hrifnari af grjónagraut en ris a la mand, þannig að þá
fáum við öll það sem okkur finnst best.
Grjónagrautur með haframjólk og kanilsykri:
