Kartöflusalat fyrir jólin
Eftir því sem vegan vöruúrval eykst verður auðveldara að búa til vegan útgáfu af uppáhalds uppskriftum. Og það á sannarlega við um kartöflusalatið, nú fæst vegan mayones og vegan sýrður rjómi í öllum stórmörkuðum, svo ekki gerist þörf á að útbúa sitt eigið frá grunni.
Þessi uppskrift er einföld, en það getur verið svolítið tímafrekt að skræla svona mikið af kartöflum. Við útbúum kartöflusalatið yfirleitt á Þorláksmessu og geymum svo í kæli, því það er svo gott daginn eftir þegar kartöflurnar hafa aðeins tekið í sig bragðið úr sósunni.
Þetta hátíðlega kartöflusalat er bara gert einu sinni á ári, og við njótum þess í botn. Það passar með flestum hátíðarmat, en okkur finnst líka ómissandi að hafa grænar baunir og heimalagað rauðkál sem meðlæti.
Kartöflusalat
- 1 kg kartöflur
- ½ rauðlaukur, smátt saxaður
- 300g vegan mæjónes
- 200g sýrður vegan rjómi
- 2 msk sætt sinnep
- 1 msk rifin piparrót
- 1 tsk malaður svartur pipar
- 1-2 tsk hrásykur
- 1 tsk eplaedik
- 1 tsk sjávarsaltflögur
Sjóðið kartöflurnar, kælið, afhýðið og skerið í þunnar sneiðar og setjið í stóra skál. (Það er líka hægt að nota forsoðnar kartöflur ef tíminn er naumur).
Afhýðið rauðlaukinn, saxið smátt og setjið í sömu skál og kartöflurnar.
Hrærið saman dressingunni, það er restinni af uppskriftinni. Hellið yfir kartöflurnar og laukinn.
Þetta salat geymist í 5-7 daga í kæli og verður bara betra með hverjum deginum.