Kasjúhnetu*ostur*
Við mæðgur höfum tekið ófáar skorpur í jurtaostagerð í gegnum tíðina. Okkur finnst algjört æði að eiga góðan hnetuost til í ísskápnum, enda hægt að nota hann á svo fjölbreyttan hátt. Við borðum hann með kexi eða góðu brauði, passar líka mjög vel að smyrja á maískökur og raða vel af grænmeti ofan á. Svo er hann dásamlegur í salöt og líka góður með pasta, (ómissandi í þetta svakalega ravioli!). Og eiginlega bara í allt sem okkur dettur í hug. Eitt frábært kombó er salat með balsamdressingu, bökuðum rauðrófum, valhnetum og þessum hnetuosti.
Hnetuosturinn bragðast auðvitað ekki eins og hefðbundinn ostur, enda gerður úr hnetum. En við berum hann fram á sama hátt og ost og köllum hann þess vegna hnetuost.Við útbúum ostinn daginn áður en við ætlum að bera hann fram, en svo endist hann líka alveg í rúma viku í loftþéttu íláti í kæli. Hér má sjá framkvæmdina í grófum dráttum:
Leggið hnetur í bleyti í 2-6 klst
Hellið vatninu af og skolið hneturnar
Maukið hnetur og þurrefni í matvinnsluvél
Stoppið annað veifið og skafið niður með hliðunum. Bætið vökvanum við og maukið þar til silkimjúkt
Setjið í krukku m loki og látið standa við stofuhita í allt að 24 klst, ef vill, má sleppa. Setjið í kæli í minnst 30 mín til að stífna áður en rúllurnar eru útbúnar
Rúllið ostinum upp úr einhverju gómsætu. Sesamfræ, saxaðar hnetur, ferskar kryddjurtir, rifinn sítrónubörkur, rósapipar...
Berið fram með góðu kexi og vínberjum...
...eða skerið í sneiðar og notið í salat eins og þetta væri geitarostur, t.d. með rauðrófum, balsam og valhnetum...
- 1 ⅓ bolli lífrænar kasjúhnetur, lagðar í bleyti
- duft úr 3 probiotic hylkjum
- 3 msk næringarger eða laukduft (eða blanda)
- 1 tsk sjávarsalt
- 1 msk sítrónusafi
- ½ msk eplaedik
- 1 msk lífræn kókosolía (má sleppa, en hún gefur stífari og betri áferð)
- góðgæti til að hræra út í og velta upp úr. Sítrónubörkur, kryddjurtir, fræ, saxaðar hnetur, rósapipar....
1. Leggið hnetur í bleyti í 2 klst eða lengur.
2. Hellið vatninu af og skolið hneturnar.
3. Maukið hneturnar í matvinnsluvél ásamt probiotic duftinu, sjávarsalti og næringargeri / laukdufti. (Við notuðum blöndu af næringargeri og laukdufti, en þið getið líka notað bara annað hvort það sem þið eigið til eða fílið betur).
4. Það fer eftir því hversu kraftmiki matvinnsluvélin ykkar er hvort þið þurfið að stoppa oft til að skafa niður með hliðunum. Við erum með kraftmikla matvinnsluvél svo við þurftum ekki að stoppa oft. En engar áhyggjur þolinmæðin þrautir vinnur allar.
5. Bætið vökvanum við og maukið þar til silkimjúkt.
6. Setjið í krukku m loki og ef þið viljið getið þið látið ostinn standa við stofuhita í allt að 24 klst, okkur finnst það gefa betra bragð, en það má setja beint í kæli ef vill.
7. Setjið ostinn í kæli í minnst 30 mín til að stífna áður en rúllurnar eru útbúnar.
8. Við söxuðum kryddjurtir og rifum sítrónubörk (af lífrænum sítrónum) til að hræra út í ostinn áður en við rúlluðum honum upp úr sesamfræjum og ferskum kryddjurtum og sítrónuberki.
9. Geymið ostarúllurnar í kæli þar til á að bera þær fram.
Njótið
