Klesstar kartöflur með pestó
Íslenskar kartöflur fást í öllum búðum á þessum árstíma og nú er um að gera að nýta uppskeruna.
Við mæðgur erum miklir kartöflu aðdáendur og þessa dagana höfum við kartöflur með matnum oft í viku, það er svo margt gott hægt að gera úr kartöflum.
Um daginn gerðum við einfaldan kartöflurétt, sem er frábært meðlæti með hverju sem er í rauninni. Við suðum kartöflurnar, krömdum þær svo, steiktum stutt á hvorri hlið og bárum fram með Himnesku pestói. Græna pestóið frá Himneskt finnst okkur rosalega gott, þetta er lífrænt pestó sem kemur beint frá Ítalíu.
Svo bárum við kartöflurnar fram með smá slettu af vegan mayo til hliðar og það var hættulega gott.

Nýjar kartöflur úr garðinum

Glænýjar kartöflur þurfa samkvæmt okkar reynslu aðeins styttri suðu en kartöflur sem hafa verið geymdar lengur. Við gerum því ráð fyrir að þurfa að auka suðutímann örlítið þegar líður á veturinn.
Klesstar kartöflur með pestó
- 10 kartöflur, soðnar
- 1 msk kókosolía til að steikja upp úr
- ½ krukka grænt pestó frá Himneskt
Kremjið kartöflurnar, t.d. með botninum á krukku eða glasi.
Hitið olíu á pönnu og steikið kartöflurnar á hvorri hlið þar til þær verða gylltar báðum megin (ca 1 mín á hvorri hlið).
Setjið slettu af pestói á kartöflurnar. Og smá mayo í skál ef vill...
Njótið!