Lakkrís kókoskökur með súkkulaði
Í skammdeginu finnst okkur svolítið notarlegt að baka eitthvað gott um helgar. Núna um helgina verður smá afmæliskaffi í fjölskyldunni og við ákváðum að baka smákökur sem gætu slegið í gegn hjá afmælisbarninu, sem er hrifið af lakkrís og súkkulaði.

Okkur langaði að hafa kökurnar vegan og hráefnið lífrænt ræktað eins og hægt væri.
Oft eru notuð egg í smákökudeig til að halda deiginu saman og við vorum velta því fyrir okkur hvað gæti verið sniðugt í staðinn fyrir egg í svona kökur. Stundum er notuð auka olía, eða útbleytt hörfræ eða chiafræ. Og jafnvel aquafaba, sem er þeyttur kjúklingabaunavökvi. Þegar við vorum að velta þessu fyrir okkur þá laust skyndilega niður hugmynd í kollinn á þeirri eldri og reyndari. Hvað ef við prófum að nota vegan-mayones í staðinn fyrir egg? Við prófuðum það og það virkaði vel! Deigið varð mjög flott, létt og loftkennt. Vegan mayones fæst í öllum búðum núorðið og er oft til á heimilum grænkera.
Kökurnar eru rosalega góðar. Krakkarnir í hverfinu eru líka búnir að samþykkja þær.

Við notuðum lífrænt fíntmalað spelt í þessar kökur og fannst það koma mjög vel út, við mælum með því frekar en hvítu hveiti. Bæði vegna þess að það kemur úr lífrænni ræktun, en líka vegna þess að okkur finnst það hafa góða eiginleika í baksturinn, það er létt og lifandi.
Kökurnar eru laaang bestar nýbakaðar. Við sjáum fyrir okkur að baka þessar aftur fyrir jólin.

En það er líklega í góðu lagi að móta deig"pulsu" og frysta. Þá er hægt að skera frosnu deigpulsuna í sneiðar og baka passlega margar kökur í einu.
Lakkrís kókoskökur með súkkulaði
- 1 b vegan smjörlíki , t.d. earth balance
- 1 b lífrænn hrásykur
- 1 msk vegan mayo
- 1 msk útbleytt chiafræ*
- 1 tsk vanilla
- - hræra þetta saman í hrærivél þar til létt og loftkennt (t.d. 10-15 mín)
- 2 ¼ b kókosmjöl
- 2 ¼ b spelt , fínt malað
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 b smátt skornir vegan lakkrísbitar
- ½ b vegan súkkulaði, lífrænt
- - þurrefnunum bætt út í og hrært stutt saman, bara um 15 sekúndur eða þar til allt hefur blandast saman
Best er að baka úr deiginu þegar það er við stofuhita, ekki þarf að kæla deigið fyrst.Gott er að nota teskeið til að búa til kökur til að raða á ofnplötuna. Fletjið kökurnar smávegis út með fingrunum ef þið viljið flatar kökur, en svo er líka hægt að móta kúlur og þá verða kökurnar hærri.
Bakið í forhituðum ofni við 185°C í 5-10 mínútur, eða þar til kökurnar byrja að taka lit. Gott að fylgjast með, fer eftir ofninum hvort þær þurfa bara 5 mín, eða meira.
Færið kökurnar yfir á kökugrind til að kólna í smástund áður en þið njótið!
