Lífrænar fitubombur
Bragðgóðar bombur án viðbætts sykurs
Þessir molar eru einskonar sælgæti án sætu. Þeir eru virkilega bragðgóðir þó þeir séu ekki mjög sætir og geta komið í staðinn fyrir sælgæti, en eru kannski fyrst og fremst hugsaðir fyrir þá sem eru að sleppa alveg sykri.
Þeir sem hafa prófað sykurlaust, ketó eða lágkolvetna fæði tala margir um að svokallaðar fitubombur hjálpi til við að minnka löngun í sætindi og gefi bragðgóða orku í formi fitu, án sykurs.
Þar sem svona bombur eru mjög vinsælar um þessar mundir langaði mig að prófa að búa til uppskrift þar sem innihaldið væri lífrænt ræktað og eingöngu úr jurtaríkinu.
Mér finnst þessir molar bragðast vel án nokkurrar sætu. Þeir sem vilja sætara bragð geta að sjálfsögðu bætt við nokkrum dropum af steviu (5 dropum) eða annarri sætu að eigin vali.
- Solla

Lífrænar fitubombur
- 150g kókosflögur
- 170g möndlusmjör
- 125g kókosolía, fljótandi
- 25g (um 2 msk) kakósmjör, fljótandi
- 1 msk kakóduft
- 2 tsk vanilla
- ¼ tsk sjávarsaltflögur (eða eftir smekk)
- nokkur chilikorn
- (5 dropar stevia ef vill - eða önnur sæta)
Aðferð
Byrjið á að mala kókosflögurnar í mjöl, annað hvort í matvinnsluvél eða blandara.
Bætið síðan restinni af uppskriftinni út í og klárið að blanda þar til þetta er orðið að silkimjúku og flæðandi deigi, svolítið líkt og smoothie.
Hellið í form og setjið inn í frysti til að stífna.
Njótið.