Litlar sítrónukökur

Sítrónuterturnar bráðna í munni. Dásamlega mjúkar og rjómkenndar, ljúf blanda af sætu og súru.


Það sem við fílum svo vel við svona "RAW" kökur er hversu einfalt er að útbúa þær. Það er ekkert sem hægt er að klúðra og enga bökunarhæfileika þarf til. Möndlu-kakó-botninn maukum við í matvinnsluvél og þjöppum í muffinsform. Sítrónukremið maukum við í blandara og hellum yfir botnana. Setjum í frysti til að stífna. Best finnst okkur að skreyta kökurnar með góðri sultu, ferskum berjum eða bara þeim ávöxtum sem við eigum, til að gefa gott bragð og auka á lúxusinn.

Þessar dásamlegu litlu tertur er tilvalið að eiga í frystinum og taka fram þegar gesti ber að garði

- Botn
- 100 g möndlur
- 15 g (1 msk) kakóduft
- 150 g döðlur
- nokkur korn sjávarsalt
Bætið restinni af uppskriftinni út í og blandið þar til klístrast vel saman.
Setjið um 2 msk af deigi í hvert form, þrýstið niður og setjið í frysti á meðan þið búið til fyllinguna.
(Okkur finnst best að nota silikon muffinsform, þá er svo auðvelt að ná kökunum upp úr).
- Fylling
- 180 g kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst
- 50 ml sítrónusafi
- 50 ml kókosmjólk, þykki hlutinn*
- 100 g kókosolía, fljótandi
- 100 ml hlynsíróp
- 1 tsk vanilla
- nokkur korn sjávarsalt
*Setjið dós af kókosmjólk inn í ísskáp, þá skilst þykki hlutinn frá vökvanum og það er sá partur sem við notum til að gera kökuna sérlega rjómakennda.
Setjið kasjúhneturnar í skál og látið vatn fljóta vel yfir og látið liggja í bleyti í um 2 klst.
Hellið vatninu af og setjið kasjúhneturnar í blandara ásamt restinni af uppskriftinni, blandið þar til silkimjúkt.
Hellið fyllingunni yfir botnana og setjið í frysti í 3-4 klst eða þar til kökurnar hafa stífnað.
- Ofan á
- Sulta eða fersk ber eða ávextir
Skreytið kökurnar með sultu eða ferskum berjum eða ávöxtum áður en þær eru bornar fram.
Kökurnar eru bestar ef þær fá að mýkjast við stofuhita í smááá stund.
Njótið!
