Nachos ídýfa
Lífræn og vegan
Þegar við erum í enn meira snakk stuði skellum við í lagskipta ídýfu sem er borin fram heit. Í botninn setjum við heimagerða "osta"sósu úr kasjúhnetum, hellum síðan fljótlegu salsa með svörtum baunum yfir og toppum með rifnum vegan osti. Þetta fer inn í ofn og úr verður virkilega góð ídýfa sem passar vel með tortillaflögum.
Til að búa til vegan ostasósu í botninn notum við kasjúhnetur. Þær gefa svo dásamlega áferð.
Vegan ostasósa
Kasjúhneturnar lagðar í bleyti
Umbreytast í "ostasósu"
Við berum ídýfuna fram með lífrænum tortillaflögum, niðurskornu grænmeti og jafnvel skál af guacamole.

Lagskipt ídýfa
"Ostasósa"
- 3 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst (vatn látið fljóta yfir)
- 2 dl vatn (nýtt vatn..ekki íbleytivatnið)
- 2-3 msk ólífuolía
- 2 msk sítrónusafi
- 1 msk sætt sinnep
- 1 lítið hvítlauksrif
- 1 tsk laukduft
- 1 tsk salt
- 2-3 döðlur
Setjið kasjúhneturnar í bleyti í 2 klst. Hellið síðan vatninu af hnetunum.
Setjið nú allt hráefnið í blandara og blandið þar til silkimjúkt.
Salsa
- 1 krukka lífræn taco sósa frá Santa Maria
- 10 kirsuberjatómatar
- 1 dl soðnar svartar baunir
- (smá chili ef vill)
Skerið kirsuberjatómatana niður og blandið saman við taco sósuna ásamt svörtu baununum.
Aðferð
Búið til kasjú"osta"sósuna og hellið henni í eldfast mót.
Bakið kasjú-sósuna við 200°C í u.þ.b. 5 mínútur, takið svo mótið út. (Kasjú-sósan er bökuð í smá stund til að hún þykkni aðeins, áður en salsanu er hellt yfir).
Hellið salsanu yfir kasjúostasósuna og stráið rifnum osti svo yfir salsað.
Bakið við 200°C í 8-10 mín.
Berið fram með uppáhalds nachos flögunum ykkar og niðurskornu grænmeti.
