Nýbakað speltbrauð
Nýbakað brauð er einfaldlega ómótstæðilegt. Volgt og mjúkt og ilmandi.
Og fyrsta sneiðin er alltaf best bara með smjöri (vegan) sem bráðnar aðeins af því að brauðið er ennþá volgt.
Við notum lífrænt spelt í baksturinn okkar, steinmalaða speltið frá Himneskt er í miklu uppáhaldi, enda alveg einstaklega gott að baka úr því.

Brauðið er vel bakað í gegn og sneiðarnar mjúkar og loftmiklar. Best er að nota góðan brauðhníf (hnífur með tönnum) til að skera sneiðarnar.
Þetta brauð er t.d. upplagt að baka til að hafa með súpunni í kvöld. Eða bara af því að brauð er svo gooott!
Spelt brauð
- 4 b (500g) fínt og gróft spelt til helminga
- 1 pakki (11g) þurrger
- ½ tsk sjávarsalt
- 1 msk hlynsíróp
- 2 b (475ml) heitt vatn (ekki heitara en 38°C)
Setjið mjölið ásamt geri og salti í skál og blandið saman.
Hrærið hlynsírópinu og vatninu saman og bætið út í mjölblönduna. Blandið án þess að hnoða þar til þið hafið klístrað en vel blandað deig.
Hitið ofninn í 200°C.
Setjið deigið í smurt brauðform. Formið sem við notuðum er 26cm x12cm og 8cm djúpt. (Mikilvægt að formið sé nógu stórt).
Látið hefast í um 20 mín, hyljið með röku viskastykki á meðan.
Bakið í 40 mín við 200°C. Ef toppurinn er farinn að dökkna um of áður en bökunartíminn er búinn er hægt að setja álpappír yfir brauðið á meðan það bakast að fullu, svo skorpan brenni ekki.
Okkur finnst gott að taka brauðið úr forminu og baka það á hvolfi án formst í nokkrar auka mínútur í lokin, til að fá aðeins meiri skorpu.
Brauðið geymist ferskt í 2-3 daga, fullkomið að setja í brauðristina á 3 og 4ða degi. En auðvitað laaang best nýbakað.
Njótið!
