Peruterta
Margir eiga minningar um uppáhalds kökur eða rétti úr barnæsku sem vekja upp nostalgíu. Við mæðgur eigum eina slíka, það er perutertan hennar (m)ömmu Hildar. Þessa tertu bakaði hún alltaf þegar einhver í fjölskyldunni átti afmæli.
Við höfðum ekki fengið perutertu í mörg mörg ár, en um daginn datt okkur í hug að endurvekja þessa uppáhalds tertu, í okkar eigin útgáfu. Okkar uppskrift er vegan, þ.e.a.s. inniheldur hvorki egg né mjólkurvörur. Og við völdum lífrænt hráefni í allt sem hægt var.
Í staðinn fyrir svampbotninn bökuðum við vegan kökubotn og í staðinn fyrir niðursoðnar perur gerðum við dásamlegar engiferperur úr ferskum perum.
Engifer perur
Vegan botn
Að lokum þeyttum við hafrarjóma með lífrænu súkkulaði í staðinn fyrir eggjarauðu- og rjómakremið.
Perur á botninn
Vegan súkkulaðirjómi
Í dag er einmitt afmælisveisla í fjölskyldunni og þá verður að sjálfsögðu boðið upp á perutertu.Útkoman var dásamleg terta sem vakti svo sannarlega upp nostalgíu hjá okkur mæðgum.
Vegan peruterta
Botn
- - uppskriftin miðast við form sem er 26cm í þvermál
- 200 g fínt spelt, lífrænt frá Himneskt
- ¾ tsk vínsteinslyftiduft
- ½ tsk matarsódi
- 125 g hrásykur, lífrænn frá Himneskt
- 60 ml ólífuolía, lífræn frá Himneskt
- 150 ml möndlumjólk eða önnur jurtamjólk
- 50 ml sódavatn
- 1 tsk vanilla
- nokkur saltkorn
Byrjið á að gera formið (26 cm þvermál) tilbúið og setjið bökunarpappir í botninn.
Kveikið á ofninum og stillið á 170°C.
Sigtið speltið, vínsteinslyftiuftið og matarsódann og setjið í skál, bætið hrásykrinum og saltinu út í.
Blandið olíu, jurtamjólk og vanillu saman.Hellið út í þurrefnablönduna og hrærið saman, gott að nota hrærivél eða handþeytara. Hrærið í 1-2 mín eða þar til þetta verður að kekklausu deigi. Síðustu 5 sekúndurnar þá hellið þið sódavatninu út í og létt blandið. Þetta er gert til að fá loft í deigið.
Hellið deiginu strax í formið og setjið inn í heitann ofninn.
Bakið við 170°C í 35-40 mín.
Perur
- 4 perur, vel þroskaðar
- 5 dl eplasafi
- 2-3 msk engiferskot, frá Himneskt (hægt að nota 5 cm bita ferskan engifer)
- 1 tsk vanilla
- ¼ tsk sjávarsalt
Skerið perurnar í tvennt, kjarnhreinsið og afhýðið.
Setjið í pott ásamt eplasafa, engiferskoti, vanillu og salti.
Látið suðuna koma upp og sjóðið perurnar við vægan hita í um 20 mín, loklaust.Slökkvið undir hellunni og leyfið perunum að kólna í pottinum.
Vætið kökubotninn með 3-4 msk af perusafa.
Leggið perurnar fallega ofan á kökubotninn.
Setjið að lokum súkkulaðirjómann yfir.
Súkkulaðirjómi
- 1 peli AITO jurtarjómi
- 50g 71% súkkulaði, lífrænt frá Himneskt
Þeytið jurtarjómann í hrærivél, það virkar ekki jafn vel að handþeyta. Fylgist sérstaklega vel með að þeyta ekki of mikið.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.
Kælið súkkulaðið í smá stund og hrærið síðan rólega saman við rjómann í hrærivélinni. Passið aftur að hræra ekki of mikið.
Smyrjið rjómanum yfir perurnar.
Njótið