Samloka með reyktu tófú og hrásalati
28 mar. 2019
Eins og komið hefur fram hér á blogginu okkar mæðgna erum við mikið að nýta tófú í eldhúsinu þessa dagana. Um daginn birtum við
uppskrift að marineruðu tófú með reyktu og söltu bragði. Þetta tófú er upplagt að nota sem álegg í djúsí samloku. Vegna þess að tófú sneiðarnar gefa reykt og saltað bragð fannst okkur upplagt að hafa eitthvað frískandi en samt djúsí með og duttum niður á hrásalat með ananas og vegan mayo. Þetta er virkilega gott kombó á súrdeigsbrauði. En svo er líka hægt að nota tófúsneiðarnar ofan á brauð með fullt af fersku grænmeti og góðri sósu.
smávegis vegan mayo í botninn + tófúsneiðar
ríflega af hrásalati yfir
Fyrst er auðvitað að útbúa tófú sneiðarnar og hrásalatið. Svo er eftirleikurinn auðveldur.
Uppskriftin að tófúinu er hér
Hrásalat
- 200g rifið hvítkál
- 2 gulrætur þunnt skornar
- ½ dl ananas í litlum bitum
- 3 msk vegan mayo
- 2 tsk sinnep
- 1 tsk harissamauk
- ¼ tsk chiliflögur
Aðferð
Blandið hvítkáli, gulrótum og ananas saman í skál.
Hrærið saman mayo, sinnep, harissamauk og chiliflögur.
Hellið yfir grænmetið og blandið saman.
Raðið reyktum tófúsneiðum á súrdeigsbrauð og setjið hrásalatið ofan á.
Reyktar tófúsneiðar - uppskrift