Sólberja og rauðrófu kaka
Þessar dásamlegu litlu kökur slógu í gegn hjá allri fjölskyldunni, jafnt smáum sem stórum. Kökurnar eru haustlegur lúxus desert, með hvítu súkkulaði og sólberjum. Til að fá smá jafnvægi í kökurnar notuðum við líka tófú og rauðrófur, en hvíta súkkulaðið, sólberin og kryddin gefa samt sem áður bragðið. Við eigum hiklaust eftir að gera þessar aftur, þær voru svo mjúkar og góðar. Og dásamlegar volgar úr ofninum.
Við notuðum heimagerða sólberjasultu , en þið getið sem best notað þá sultu sem þið eigið til, hvort sem hún er heimagerð eða keypt, þarf ekki að vera sólberjasulta. Okkur fannst reyndar voða gott að hella smávegis af sólberjasultu yfir kökurnar þegar við bárum þær fram.

Sólberja og rauðrófukökur
- 150g tófú
- 100g hrásykur eða kókospálmasykur
- 200g spelt, við notuðum fínt og gróft til helminga
- 1 tsk lyftiduft
- 50 ml plöntumjólk að eigin vali
- 1 rauðrófa, soðin
- 2 vænar msk sólberjasulta eða önnur góð sulta
- 1 tsk vanilludropar
- ½ tsk kanill
- ¼ tsk kardemommur, malaðar
- ¼ tsk sjávarsaltflögur
- 1 plata hvítt vegan súkkulaði
Setjið allt nema súkkulaðið í matvinnsluvél og maukið saman.
Hitið ofninn í 180°C.
Smyrjið lítil form og setjið um 60 ml (4 msk) af deigi í hvert form. (U.þ.b. 6 form, með um 7cm þvermál)
Brjótið súkkulaðið í litla bita og stingið 4 bitum ofan í formin og hyljið með deigi.
Bakið í 20 mínútur, takið kökurnar úr forminu og bakið áfram í 5-10 mín.
Þegar um 3 mín eru eftir af bökunartímanum setjið þið 1 súkkulaði bita ofan á hverja köku.
Takið kökurnar út og dreifið úr súkkulaðinu svo það myndi krem.
Ef vill má skreyta kökurnar með ferskum berjum eða smávegis sultu.
Njótið!