Sólberjasulta
Við skruppum í bláberjamó um daginn, og svo tíndum við líka sólber og rifsber í garðinum. Ein af okkar uppáhalds sultum er einmitt sólberjasulta. Sólberin eru svolítið súr en ótrúlega bragðgóð.

Við erum hrifnari af sultum sem eru ekki dísætar, en vel kryddaðar. Þær gefa fullt af góðu bragði, en ekki sama sykurmagn og sulturnar sem fást úti í búð. En vegna þess að sykur eykur geymsluþolið þurfum við að hafa í huga að okkar sultur hafa styttra geymsluþol. Ef við gerum mikið magn af sultu frystum við hluta af sultunni í smærri skömmtum. Eða búum til hóflegan skammt og sultum svo bara aftur seinna. Þau sem vilja sulta en eru ekki með berjarunna í garðinum geta keypt frosin sólber, þau fást í flestum matvörubúðum.

Í þessa sultu notuðum við lífrænan hrásykur frá Himneskt, og svo fullt af góðu kryddi. Kanil, kardemommur, límónulauf, sítrónugras, sítrónu og salt. Svo gott! Sultan er góð á brauð, en líka sem sósa út á ís eða með kökusneið.
Sólberjasulta
- 4 kg sólber
- 500 g lífrænn hrásykur
- 1 kanilstöng
- 5 kardemommur
- 2 límónulauf
- 1 sítrónugrasstöngull
- 1 lífræn sítróna skorin í fernt
- smá sjávarsalt
Hreinsið og þvoið sólberin og fjarlægið lauf og stilka.
Setjið síðan í pott með restinni af uppskriftinni og látið sjóða í góðan klukkutíma.
Merjið berin með sleif annað veifið á meðan.
Slökkvið undir og setjið sultuna í tandurhreinar glerkrukkur og lokið.
Það má líka frysta hluta af henni í passlegum skömmtum.