Steikt tófú og heimagerð BBQ sósa
Svo er tófú bara svo ljúffengt þegar það er vel matreitt. Tófúið er svolítið eins og auður strigi, frekar bragðlítið og í raun ekki spennandi fyrr en búið er að krydda og matreiða vel. En það tekur vel í sig bragð og getur haft voða góða áferð, ef rétt meðhöndlað.
Í þetta sinn langaði okkur í svolítið djúsí máltíð. Við ákváðum að steikja tófúið í frekar þunnum sneiðum og reyna að fá svolítið stökka áferð utan á, en mjúka inn í. Það heppnaðist vel.
Heimagerð BBQ-sósan var ótrúlega góð með.
Þetta tófú borðuðum við bara svona, með smá grænmeti og sósunni góðu. En afganginn settum við í samloku daginn eftir, það var ekkert síðra.

Um daginn fundum við íslenskt tófú í grænmetiskælinum í Hagkaup, sem er framleitt í Hafnarfirði og heitir Thi hollusta. Okkur fannst gaman að geta keypt íslenska framleiðslu. En annars notum við oft þetta algenga úr Bónus.
Heimagerð BBQ sósa
- 2,5 dl tómatsósa, lífræn frá Himneskt
- 6 msk eplaedik, lífrænt
- 2 msk sítrónusafi
- 3 msk kókospálmasykur
- 1 msk tamari sósa
- 2 msk gróft sinnep
- 1 tsk reykt paprika
- 1 tsk laukduft
- 1 tsk hvítlauksduft
- ½ tsk chili duft
- ¼ tsk liquid smoke – má sleppa og auka þá á reykta papriku
Setjið allt í pott, látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í um 5 mín.
Kælið og njótið!
Tófú
- 1 pakki tófú (400-450g)
- 1 dl maísenamjöl
- ½ tsk reykt paprika
- ½ tsk sjávarsaltflögur
- olía til að steikja upp úr
Skerið tófúið í sneiðar og þerrið sneiðarnar með viskastykki.
Hrærið saman maísenamjöli, reyktri papriku og sjávarsalti á disk.
Veltið sneiðunum upp úr mjölblöndunni.
Hitið olíu á pönnu og setjið tófúið út á og steikið í um 2 mín á hvorri hlið.
Þetta er frábært með steiktu grænmeti, í samlokur, eða með hrísgrjónanúðlum og grænmeti.
Njótið!
