Súkkulaði og heslihnetusmjör
Við mæðgur gerðum okkur glaðan dag um daginn og bjuggum til súkkulaði-heslihnetusmjör. Þetta er algjört lúxusálegg og minnir jafnvel pínkulítið á heimagert nutella, bara meira hnetubragð og minna sykurbragð. Og við völdum að nota lífrænt ræktað hráefni í uppskriftina.
Við ristuðum heslihnetur í ofninum og losuðum svo aðeins hýðið frá með því að nudda yfir með viskastykki
Skelltum öllu í matvinnsluvél
Oftast þarf aðeins að stoppa annað veifið og skafa niður með hliðunum
Tilbúið þegar silkimjúkt og glansandi
Við mæðgur erum sælkerar inn við beinið og finnst gaman að gæða okkur á góðgæti af og til, eins og örugglega flestum. Við erum hrifnastar af því að útbúa sætindin okkar sjálfar frá grunni, bæði vegna þess að þá þurfum við að hafa aðeins meira fyrir því að úða þeim í okkur, en líka vegna þess að þá getum við valið hráefnið sjálfar, og veljum þá helst lífrænt ræktað ef það er hægt. Við getum ákveðið að nota aðeins minna af sykri en hefðbundið er, því flest sætindi mega alveg við því án þess að það komi mikið niður á bragðinu. En stærsta ástæðan er þó sú að okkur finnst voða gaman að dunda í eldhúsinu og gefa sköpunarkraftinum lausan tauminn í smá stund.
Súkkulaði-heslihnetusmjör
- 2 b heslihnetur, ristaðar
- ½ b kókospálmasykur
- ¼ b + 1 msk kakóduft
- smá sjávarsaltflögur
Ristið heslihneturnar við 160°C í 8-10 mín
Setjið heslihneturnar á hreint viskustykki og nuddið hýðið af
Setjið í matvinnsluvél ásamt kókospálmasykrinum, kakóduftinu og saltinu
Látið vélina ganga í u.þ.b. 4-6 mín, stoppið annað veifið og skafið niður hliðarnar
Tilbúið þegar orðið silkimjúkt og kekkjalaust
Njótið!