Súkkulaði og hnetukaramellu bolla
Nú fer að líða að því að rjómabollu æðið skelli á, bakarí og búðir fyllast von bráðar af alls kyns bollum. Okkur mæðgum finnst þó skemmtilegast að baka okkar eigin bollur. Þá getum við notað lífrænt ræktað hráefni í baksturinn og haft fyllinguna eftir okkar höfði.
Amma Hildur bakaði alltaf gerbollur á bolludaginn, innblásnar af sænskum bollum. Okkur fannst þessar bollur alveg dásamlega góðar. Við höldum í fjölskylduhefðina og bökum mjúkar bollur úr lífrænu spelti.Hnetukaramella

Okkur finnst gaman að prófa mismunandi fyllingar. Þessi fylling er innblásin af snikkers, við smyrjum heimagerðri hnetusmjörs-karamellu á botninn, ofan á hana setjum við þeyttan hafrarjóma sem við bragðbætum með súkkulaði. Bollu lokið toppum við svo með súkkulaðiglassúr.
Þessar bollur eru virkilega djúsí, svo við höfum þær ekkert allt of stórar.
Hafrarjómi með súkkulaði

Bolludags bollur
Bollur
- 3 dl volgt vatn, ca 37/40°C
- 50g pressuger
- 100g jurtasmjör/smjörlíki
- 3 msk lífrænn hrásykur
- 1 tsk vanilla
- ½ tsk sjávarsaltflögur
- ½ kg fínt spelt
Skerið pressugerið í bita og setjið út í vatnið ásamt sykri og vanillu, hrærið svo þetta leysist upp.
Bræðið jurtasmjörið/smjörlíkið við vægan hita, kælið svo það sé svona um 37/40°C , hellið út í gerblönduna.
Bætið speltinu út í í nokkrum skömmtum, hnoðið vel saman, setjið deigið í skálina og látið hefast á volgum stað í um 30 mín.
Takið deigið úr skálinni og hnoðið aftur. Formið um 18 miðlungsstórar bollur, setjið þær á bökunarplötu og látið hefast aftur í um 20/30 mín.
Bakið við 200°C í 15 mínútur
Sölt karamella
- 4 msk möndlu- eða hnetusmjör (eða 50/50 möndlu og hnetusmjör)
- ⅔ dl kókosolía
- 1 ¼ dl hlynsíróp
- 6 döðlur, smátt saxaðar
- 1 tsk sjávarsaltflögur
Setjið allt í blandara eða matvinnsluvél og blandið vel saman.
Rjómi
- 1 peli AITO jurtarjómi
- 50g 71% súkkulaði frá Himneskt, brætt yfir vatnsbaði
Þeytið jurtarjómann.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.
Kælið súkkulaðið í smá stund og hrærið síðan saman við rjómann.
Glassúr
- 50g jurtasmjör/jurtasmjörlíki
- 150g flórsykur
- 3 msk kakóduft – má líka nota 3 msk brætt 71% súkkulaði
- ½ tsk vanilla
- ½ tsk sjávarsaltflögur
Bræðið jurtasmjörið og hrærið restinni af uppskriftinni út í.
Samsetning
Skerið nú hverja bollu í tvennt, smyrjið karamellu á neðri helminginn, setjið væna skeið af súkkulaði rjóma og smyrjið glassúr á lokið. Njótið!
Njótið!