Súrsæt blómkál
Íslenskt blómkál finnst okkur voða gott og við reynum því að nýta það vel á meðan það fæst.
Einn dásamlegur réttur sem við gerum stundum er blómkál í súrsætri sósu með kasjúhnetum. Það er mjög gott eitt og sér, en við berum það stundum fram með hrísgrjónum eða hrísgrjónanúðlum eða baunapasta.
Við notum yfirleitt heimagerða bbq sósu, uppskrift að henni finnið þið hér á síðunni. En svo má auðvitað stytta sér leið og kaupa einhverja góða tilbúna sósu.
Það tekur u.þ.b. 30 mín á græja réttinn.
Súrsætt blómkál
- 1 blómkálshöfuð
- 1 tsk laukduft (krydd)
- 1 tsk paprika (krydd)
- ½ tsk reykt paprika (krydd)
- ½ tsk sjávarsalt
- 2 msk kókosolía eða ólífuolía, lífræn frá Himneskt
- 1 paprika, steinhreinsuð og skorin í bita
- 1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
- 2 hvítlauksrif
- 1 tsk sjávarsaltflögur
- 100g kasjúhnetur, lífrænar frá Himneskt
- 2-3 msk bbq sósa ( t.d. heimagerð )
- 2 msk sítrónusafi
Hitið ofninn í 200°C
Skerið blómkálið í bita, setjið á ofnplötu, kryddið með laukdufti, papriku, reyktri papriku og sjávarsalti. Skvettið olíu yfir og bakið við 200°C í 12 – 15 mín.
Á meðan blómkálið er að bakast er gott að skera paprikuna og laukinn í bita og steikja á pönnu ásamt hvítlauknum í um 5 mín. Kryddið með sjávarsalti.
Þegar blómkálið er tilbúið skellið því á pönnuna ásamt kasjúhnetunum og hrærið saman við grænmetið.
Hellið bbq sósunni og sítrónusafanum yfir og steikið í 3-4 mín.
Og um að gera að njóta þess að borða úti á meðan veðrið leyfir!
