Thai súpa
Okkur mæðgum finnst voða gott að elda okkur matarmikla súpu stútfulla af grænmeti, enda eru súpur svo nærandi matur. Þessi súpa hér er í sérlega miklu uppáhaldi, þetta er kókos karrý súpa, krydduð með thai curry paste, sítrónugrasi og límónulaufum.
Sítrónugrasstöngla og límónulauf kaupum við frosið í Asíumörkuðum. Stundum er líka hægt að fá sítrónugras í stórmörkuðum. Okkur finnst algerlega þess virði að sækja þessi krydd sérstaklega fyrir súpuna, þau gefa svona "authentic" bragð, súpan verður bara svo miklu betri. Við kaupum yfirleitt nóg til að eiga í frystinum, þá er alltaf hægt að skella í dásamlega súpu.
Súpan er það matarmikil að okkur finnst ekki endilega þurfa neitt meira með, enda stútfull af grænmeti.
En svo er líka voða gott að bera hana fram með naan brauði eða góðu súrdeigsbrauði.
Thai súpa
- 2 msk kókosolía, Himnesk
- 2 hvítlauksrif
- 3 límónulauf
- 1 sítrónugras stöngull
- 200g hvítkál, niðursneitt
- 2 gulrætur, skornar í þunnar sneiðar
- 100-200g sætar kartöflur, skornar í bita
- 100g kartöflur, skornar í bita
- 100g blómkál, skorið í litla bita
- 2 msk rautt thai curry paste
- 1 msk tómatpúrra, Himnesk
- 1 msk grænmetiskraftur, Himneskur
- 1 tsk sjávarsalt
- 2 dósir kókosmjólk
- 250 ml vatn
- Ofan á:
- ½ rauðlaukur, skorinn í þunna strimla og steiktur á pönnu
- ½ paprika, skorinn í bita og steikt á pönnu
- ferskur kóríander
- sítrónubátar
- ristaðar kasjúhnetur, Himneskar
Byrjið á að skera grænmetið niður.
Hitið olíu í potti og steikið hvítkál, hvítlauk, límónulauf og sítrónugrasstöngul í 2-3 mínútur.
Bætið restinni af grænmetinu út í og steikið í 2-3 mín í viðbót.
Bætið currypaste, grænmetiskrafti og tómatpúrru út í og hrærið.
Setjið að lokum kókosmjólkina og vatnið út í og látið nú sjóða í 12-15 mín eða þar til grænmetið er eldað í gegn.
Ef ykkur finnst vanta meiri vökva í súpuna getið þið bætt við kókosmjólk eða vatni eða tómatpassata.
Á meðan súpan en að malla er gott að steikja laukinn og paprikuna, leyfa því að verða gyllt og sætt.
Bætið sítrónubátunum út á pönnuna með lauknum og paprikunni og leyfið að vera í nokkrar mínútur.
Setjið súpuna í skálar og toppið með laukblöndunni, ferskum kóríander og ristuðum kasjúhnetum.
Njótið