Tófúspjót m hnetusósu
Í góðu veðri er stemmning í því að grilla. En hvað er hægt að grilla sem er ekki kjöt eða meðlæti?
Okkur mæðgum finnst mikilvægt að hafa eitthvað saðsamt og próteinríkt í aðalrétt og einn uppáhalds próteingjafinn okkar er tófú. Vel marinerað tófú finnst okkur ótrúlega ljúffengt. Við grillum stundum tófú á spjótum með góðu grænmeti.
Við höfum tekið eftir því að sumir efast um að tófú geti verið gott. Tófú er vissulega hráefni sem hefur lítið bragð í sjálfu sér, en þannig er margt annað próteinríkt hráefni líka. Krydd og meðhöndlun er yfirleitt það sem gerir matinn góðan og þar er tófú engin undantekning. Tófú dregur mjög vel í sig bragð úr marineringu og þess vegna er svo mikilvægt að krydda það vel og svo finnst okkur best að hafa góða sósu með. Okkur finnst hnetusósa passa alveg sérlega vel með grilluðu tófú.
Tófúspjót eru sumarleg og góð á grillið

Tófúspjót m/hnetusósu
Hnetusósa
- 2 msk tamari sósa
- 2 msk hlynsíróp
- 2 msk sítrónusafi
- 1 tsk engifersafi
- 2 dl kókosmjólk
- 2 dl hnetusmjör (lífrænt frá Himneskt)
- 1 hvítlauksrif
- smá biti ferskur eða þurrkaður chilipipar
- ½ tsk reykt paprika ef vill
Spjót
- 250g tófú, firm
- ½ rauð paprika, skorin í 2x2 cm bita
- ½ gul paprika, skorin í 2x2 cm bita
- 1 rauðlaukur, afhýddur og skorinn í báta
- ½ sítróna, skorin í sneiðar
- marinering fyrir tófú:
- ½ dl tamari sósa
- 1 msk hlynsíróp
Þerrið tófúið með viskastykki, vefjið því inn í það svo það dragi vökvann úr tófúinu.
Setjið marineringuna í skál eða lítið fat, skerið tófúið í bita og látið marinerast í alla vega 30 mín, hrærið í svo það marinerist á sem flestum hliðum.
Bleytið tré spjótin með því að láta renna smá vatn á þau.
Þræðið tófú bitana og grænmetið upp á spjótin. T.d. paprika, laukur, tófú, paprika, laukur, tófú, sítróna, laukur, paprika... eða bara eins og ykkur finnst girnilegast.
Penslið hnetusósu yfir grænmetið og tófúið á spjótinu og setjið á grillið.
Við settum álpappír á grillið og létum spjótið þar ofan á, það er líka hægt að setja spjótin beint á grillið.
Spjótin eru tilbúin þegar þau eru komin með girnilegar grillrendur.