Uppáhalds chiagrauturinn
Þessa dagana er sólberjagrautur í miklu uppáhaldi hjá okkur mæðgum. Svooooo góður!
Okkur mæðgum finnst chiagrautur frábær fyrsta máltíð dagsins, því hann er mjög saðsamur og gefur endingargóða orku. Mestu máli skiptir þó að hann sé bragðgóður. Og það er þessi sólberjagrautur svo sannarlega.
Grautinn finnst okkur best að búa til kvöldið áður svo við getum gengið að honum vísum þegar hungrið gerir vart við sig, en hann má einnig útbúa samdægurs. Fyrst búum við til sólberjasmoothie og hrærum svo chiafræjunum út í hann. Útkoman er dásamlega rjómakenndur bleikur grautur. Og af því að við erum mikið fyrir lúxus þá berum við hann fram með smá hnetusmjöri út á. Og fræjum og berjum því það er svo gott.
Sólber eru í miklu uppáhaldi hjá okkur, þau gefa svo gott bragð, passlega sætt og smá súrt. Það er hægt að nota önnur ber í staðinn...en við erum sjúkar í sólber
Sólberjasmoothie grunnur - setjið allt nema chiafræin í blandara og maukið
Hrærið chiafræjum út í. Látið standa í ísskáp í klst eða yfir nótt svo chiafræin dragi í sig vökvann
Tilbúinn bleikur chiagrautur
Berið fram með allskonar góðgæti og njótið
Chiafræ eru sérlega trefjarík, sem gæti verið ástæðan fyrir því að okkur mæðgum líður svona vel af þeim.

- 200 ml jurtamjólk
- 100g frosin sólber (eða önnur ber)
- 1 stór banani
- ½ tsk vanilla
- nokkur korn af sjávarsalti
- 30g chiafræ
Notið þá jurtamjólk sem ykkur finnst best. Kókosmjólk gefur rjómakenndustu áferðina, en hafra- eða möndlumjólk er líka góð.
Setjið jurtamjólkina í blandara ásamt sólberjum og banana, kryddið með smá vanillu og sjávarsalti og blandið þar til silkimjúkt.Hellið í skál eða krukku og hrærið chiafræjunum út í, það borgar sig að hræra í 1-2 mín svo að chiafræin klessist ekki saman, heldur byrji að bólgna út og drekka í sig vökvann.
Ef þið viljið fá sérlega léttan graut þá er smá “trikk” að setja grautinn í hrærivél og hræra í um 5 mín, þá verður áferðin léttari á grautnum.
Setjið inn í ísskáp og látið standa í um 1 klst eða lengur, í lokuðu íláti.
Þenna graut er upplagt að gera að kvöldi til ef þið ætlið að hafa hann í morgunmat. Hann verður bara betri við það að standa í ísskápnum yfir nótt.
Berið fram með hreinu hnetusmjöri, ferskum/frosnum berjum og fræjum/hnetum.
Í þetta skiptið notuðum við:
Gróft hnetusmjör
Frosin sólber
Fersk bláber
Granateplakjarna
Sesamfræ
Sólblómafræ
Njótið!