Útilegu morgunverðar mix
Staðgóður morgunverður í ferðalagið, sem auðvelt er að útbúa.
Svo finnst okkur löngun í kex og bensínstöðva snarl minnka til muna þegar fyrsta máltíð dagsins er í hollari kanntinum.

Ein af þeim hindrunum sem við höfum rekist á er að stundum finnst okkur vesen að taka marga mismunandi pakka af hráefni með í ferðalög til að útbúa spennandi morgungraut. Og svo þegar á að leggja af stað heim er ekkert sérstaklega gaman að pakka niður hálfkláruðum opnum hráefnispokum til að taka með tilbaka.
Svo að hér kemur trixið okkar fyrir staðgóðan morgunverð á ferðalagi
Við útbúum þurrt grautar mix. Við ákveðum hvað við viljum búa til marga skammta af hafragraut, með því að áætla hversu margir vilja hafragraut og hversu oft. Svo setjum við þurrefnin saman í krukku með loki eða í gott box. Þá er ekkert vesen að útbúa hafragraut í ferðalaginu, aðeins þarf að bæta vatni út í og ferskum ávexti ef vill. Og mixið tekur minna pláss en ef við hefðum tekið allt hráefnið með í umbúðunum.
Ef við höfum aðgang að hellu og potti þá er upplagt að sjóða grautinn í nokkrar mínútur. En ef ekki þá er minnsta mál að búa til svokallaðan "overnight" graut sem er líka mjög góður.

Útilegumix
- einn skammtur
- 1 dl haframjöl
- 1 tsk chiafræ
- 4 aprikósur, smátt saxaðar
- sjávarsalt, nokkur korn
- 1-2 tsk kókospálmasykur, ef vill
- fyrir suðu er bætt út í fyrir hvern skammt:
3 ½ dl vatn
½ lífrænt epli, smátt saxað
Teljið saman hvað þið viljið hafa marga skammta af graut með í ferðina.
Margfaldið uppskriftina með þeim fjölda, uppskriftin að ofan miðast við einn vænan skammt.
Setjið þurrefnin í loftþétt box eða krukku.
Ef þið hafið aðgang að eldavél eða hellu:
Setjið u.þ.b. 1 - 1½ dl af mixi fyrir hvern einstakling í pottinn, ásamt jafn mörgum skömmtum af vatni og epli. Sjóðið í 3-5 mín.
Ef þið viljið getið þið borið fram með jurtamjólk að eigin vali, en þarf ekki.
Ef þið hafið ekki möguleika á að hita:
Nóttina áður setjið þið u.þ.b. 1 - 1½ dl af mixi fyrir hvern einstakling í ílát með loki, ásamt samsvarandi magni af vatni og eplum. Látið standa á kaldasta staðnum yfir nótt, t.d. í skugga í fortjaldinu.
Grauturinn er tilbúinn þegar þið vaknið.
Njótið!