Vefja
Við skelltum í svakalega góðar vefjur um daginn, fylltum þær með grilluðu eggaldin og grilluðum paprikum, grænkáli sem við böðuðum í dásamlegri tahini sósu og ristuðum hnetum. Mjög djúsí og góð máltíð.

Eggaldinvefjur m/tahinisósu
- fyrir tvo
- 2 heilhveitivefjur eða ykkar uppáhalds vefjur
- 1 eggaldin, skorið í ½ cm þunnar sneiðar
- 1 rauð paprika, skorin í 2x2cm bita
- 2 msk olía
- 1 tsk cuminduft
- 1 tsk reykt paprikuduft
- 1 tsk sjávarsaltsflögur
- nokkur grænkálsblöð
- hnefafylli af klettasalati
- 2-3 msk pístasíuhnetur
- tahinisósa (sjá uppskrift neðar)
Hitið ofninn í 180°C.
Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og leggið eggaldinsneiðarnar ofan á ásamt paprikubitunum. Kryddið og skvettið olíu yfir.
Bakið í ca 15-18 mín við180°C eða þar til eggaldinið er gegnum bakað.
Á meðan grænmetið er að bakast er upplagt að búa til tahinisósuna (sjá uppskrift hér neðar).
Rífið síðan grænkálið í passlega stóra bita, skerið klettasalatið í tvennt og blandið saman við grænkálið. Veltið kálinu upp úr tahinisósu.
Smyrjið tvær tortillur með tahinisósu, leggið eggaldinsneiðarnar ofan á sósuna, setjið svo slatta af káli (sem búið er að velta upp úr tahinisósu) þar ofan á, síðan paprikubitana og endið á að strá söxuðum pístasíuhnetum efst.
Lokið vefjunum og setjið á heita pönnu, ca ½ mín á hvorri hlið.
Njótið!
Tahinisósa
- 1 dl tahini
- 75 ml vatn
- 3 msk sítrónusafi
- 2 msk ólífuolía
- 1 msk hlynsíróp
- 2 hvítlauksrif
- ½ - 1 tsk sjávarsaltflögur
- ¼ tsk svartur pipar
Allt sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt.
Ef sósan er of þykk má þynna hana með smá vatni.
Smakkið til með sítrónusafa og salti.
