Vegan bröns
Uppáhaldið okkar!
Vel krydduð tófúhræra og rjómakenndur chiagrautur með ferskum berjum og hnetusmjöri
Tófú hræra sem kemur á óvart
Lúxus chiagrautur
Tófú er bragðlítið í sjálfu sér og við heyrum oft að fólk hafi prófað tófú og ekki verið hrifið. En í alvöru, tófú á skilið annan séns! Til að fá virkilega gott tófú er lykilatriði að krydda vel og meðhöndla rétt. Og þessi uppskrift getur ekki klikkað, við gætum borðað svona hræru í hverri viku.
Svo er lúxus chiagrauturinn bara eins og desert. Rjómakenndur grautur með ferskum berjum, hnetusmjöri og söxuðum möndlum. Algjört nammi, en samt svona góðgæti sem okkur líður vel af.
Grautinn er upplagt að útbúa kvöldið áður, hann verður bara betri við það að standa í ísskápnum yfir nótt.
Oft kaupum við gott súrdeigsbrauð, t.d. frá Brauð&Co og berum fram með hummus eða pestó og niðurskornu grænmeti.
Svo er tilvalið að týna nokkur blóm til að hafa í vasa, enda er þetta sjónræna partur af notalegheitunum.
Gott súrdeigsbrauð og hummus
Blóm úr garðinum
Svo er bara að bjóða góðum gestum að njóta með sér, því samveran er auðvitað það besta við bröns.

Uppskriftirnar miðast við tvo skammta, svo endilega margfaldið eftir þörfum.
Tófúhræra
- 2 msk ólífuolía
- ¼ stk rauðlaukur
- 2 hvítlauksrif
- 4 grænkálsblöð
- 250g tófú
- Maringering fyrir tófú:
- 2-3 msk möndlumjólk
- 2 msk næringarger
- 1 msk tamarisósa
- 1 msk sinnep
- ½ tsk túrmerik
- ¼ tsk chiliflögur
- smá sjávarsaltflögur
- avókadósneiðar - til að bera fram með hrærunni
Áður en tófúið er marinerað er best að “kreista” vatnið úr því. Vefjið því inn í viskustykki og léttkreistið. Passið að kreista ekki of fast svo að tófúið fari ekki i mauk. Það er mjög líklegt að þið þurfið að nota 2 viskustykki við þessa athöfn því það leynist meira vatn í tófúinu en ykkur grunar.
Útbúið nú marineringuna: Hrærið saman möndlumjólk, næringargeri, tamari, sinnepi, turmeriki, chiliflögum og smá sjávarsalti í skál.
Myljið nú tófúið út í marineringuna og hrærið kryddmarineringunni inn í tófúið.
Á meðan tófúið er að marinerast saxið þá laukinn smátt, pressið hvítlaukinn og fjarlægið grænkálið af stönglinum og saxið það smátt.
Hitið olíu á pönnu og steikið lauk og hvítlauk í 4-5 mín. Setjið grænkálið út á og steikið í 1 mín í viðbót.
Bætið tófúinu við og látið létt steikjast í 4-5 mín.
Berið fram með avókadósneiðum ofan á.
Lúxus chiagrautur
- 200 ml jurtamjólk (kókosmjólk/haframjólk/möndlumjólk)
- 100g frosin ber (sólber eða hindber eða blönduð ber)
- 1 stór banani
- ½ tsk vanilla
- nokkur korn af sjávarsalti
- 30g chiafræ
Notið þá jurtamjólk sem ykkur finnst best. Kókosmjólk gefur rjómakenndustu áferðina, en hafra- eða möndlumjólk er líka góð.
Setjið jurtamjólkina í blandara ásamt sólberjum og banana, kryddið með smá vanillu og sjávarsalti og blandið þar til silkimjúkt.
Hellið í skál eða krukku og hrærið chiafræjunum út í, það borgar sig að hræra í 1-2 mín svo að chiafræin klessist ekki saman, heldur byrji að bólgna út og drekka í sig vökvann.
Ef þið viljið fá sérlega léttan graut þá er gott trix að setja grautinn í hrærivél og hræra í um 5 mín, þá verður áferðin léttari á grautnum.
Setjið inn í ísskáp og látið standa í um 1 klst eða lengur, í lokuðu íláti.
Berið fram með hreinu hnetusmjöri, ferskum/frosnum berjum og söxuðum möndlum.
Hummus
sjá hummus uppskrift hérPestó
sjá pestó uppskrift hérNjótið í góðum félagsskap