Vegan sítrónukaka
Nú er ekta kósý inni-veður og tilvalið að baka eitthvað gott um helgina.
Við mæðgur erum svakalega hrifnar af sítrónum, okkur finnst sítrónur gera flest aðeins betra. Hvað gæti þá verið betra en ljúffeng sítrónukaka með nóg af sítrónum?
Sítrónukakan er mjúk og góð, og glassúrinn gefur gott sítrónukikk. Okkur finnst þessi æði með helgarkaffinu.

Sítrónukaka
- 280g fínt spelt
- 50g möndlumjöl
- 25g maizenamjöl
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- ½ tsk matarsódi
- ½ tsk sjávarsaltflögur
- 225g hrásykur
- rifið hýði af 3 sítrónum
- 2 dl hrein vegan jógúrt
- 1 dl sítrónusafi (nýpressaður)
- 125g vegan smjör eða smjörlíki, brætt
Glassúr
- 150g flórsykur
- 3 msk sítrónusafi
- hýði af 2 sítrónum
Hitið ofninn í 180°C.
Blandið saman spelti, möndlumjöli, maizenamjöli, vínsteinslyftidufti, matarsóda, sjávarsaltflögum, hrásykri og sítrónuhýði og setjið í hrærivélaskál.
Setjið jógúrt, sítrónusafa og brætt smjörlíki út í og hrærið í smá stund, eða þar til þetta hefur blandasta saman. Passið að hræra ekki of lengi.
Smyrjið brauðform og setjið deigið í og bakið við 180°C í 50-55 mín.
Látið kólna í forminu.
Hrærið flórsykurinn, sítrónusafann og sítrónuhýðið saman og smyrjið á kökuna.
Njótið!