Vegan súkkulaði muffins
Óvænt innihaldsefni
Um daginn bökuðum við ljúffengar súkkulaði muffins, sem kláruðust á skotstundu. Við fengum nefnilega nokkra svanga smakkara í óvænta heimsókn. Litlu munnarnir smökkuðu vel og vandlega og við megum teljast heppnar að hafa sjálfar náð að næla okkur í örfáa bita.
Við mæðgur erum forfallnir aðdáendur aquafaba. Aquafaba er kjúklingabaunasoð sem hægt er að stífþeyta og nota í matargerð og bakstur á svipaðan hátt og egg. Okkur finnst þetta stórsniðug nýting á hráefni sem annars færi bara til spillis. Og hentar svona líka vel í vegan góðgæti. Um daginn vorum við að baka muffins og opnuðum nýja krukku af kjúklingabaunum til að ná vökvanum af. Okkur fannst þá auðvitað upplagt að nota bara baunirnar í baksturinn líka. Múffurnar brögðuðust einstaklega vel.Kjúklingabaunasoð má stífþeyta
Okkur mæðgum finnst gaman að nota "öðruvísi" hráefni eins og baunir, tahini, avókadó og jafnvel grænmeti í eftirrétti og sætindi. Það er að segja ef það bragðast vel, því sætindi eru fyrst og síðast gerð til að njóta. Okkur finnst ágætt að taka það fram að okkar ásetningur er ekki að fela hollustu í sætindum til að plata börnin óafvitandi í að borða baunir og grænmeti. Við viljum auðvitað að þau læri að kunna að meta bragðið og áferðina af baunum og grænmeti og öllum góðum mat eins og hann kemur fyrir í náttúrunni. Við notum þetta hráefni einfaldlega vegna þess að það er hægt og okkur finnst það gott. Okkur finnst hvítt hveiti og smjör og rjómi ekki eiga einkarétt á sætindum og ef við eigum baunir og avókadó í eldhúsinu, hvers vegna ekki að nota það á fjölbreyttan hátt?
Ps. ef ykkur langar að prófa að gera svona muffins eða aðrar uppskriftir hér á vefnum og eigið eftir að fara í búðina, þá er auðvelt að búa til sinn eigin innkaupalista hér á vefnum. Þið smellið á hjartað fyrir framan þau innihaldsefni sem ykkur vantar og þá birtist innkaupalistinn í grænu hjarta efst í hægra horninu. Hægt er að prenta hann út eða senda í email.
Vegan súkkulaðimuffins
Aquafaba
- 6 msk kjúklingabaunasoð
- ½ tsk cream of tartar
Byrjið á að þeyta kjúklingabaunasoðið í hrærivél þar til það fer að stífna. Bætið cream of tartar út í og haldið áfram að þeyta í a.m.k 10 mín eða þar til þetta er orðið alveg stífþeytt.
Muffins
- 1 ¼ b kókospálmasykur
- ½ b kókosolía
- 1 b soðnar kjúklingabaunir
- ⅔ b kakóduft
- 1 ½ b spelt (fínt og gróft til helminga)
- ⅓ b möndlumjólk
- ¼ tsk salt
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 tsk matarsódi
- 100g dökkt súkkulaði (71%)
Setjið kókospálmasykur og kókosolíu í hrærivél og hrærið í 2 mín.
Bætið kjúklingabaununum út í og hrærið í 5 mín eða þar til kjúklingabaunirnar hafa hrærst vel saman við og eru kekklausar.
Bætið kakóinu út í og hrærið saman.
Bætið speltinu við, 1 msk í einu og hrærið.
Hellið möndlumjólkinni út í ásamt lyftidufti, matarsóda og dökku súkkulaði.
Slökkvið nú á hrærivélinni og hrærið aquafaba varlega út í með sleif.
Setjið í muffinsform og bakið við 190°C í 20 mín
Takið út og látið aðeins kólna ef þið getið áður en þið gæðið ykkur á góðgætinu
Njótið í góðum félagsskap!