Pizza m tófú og chili

Pasta og pizzur

 • pizza m tofu og chili

Uppskrift

Þessi pizza er virkilega matarmikil og djúsí. Tófúið gefur prótein og chipottle maukið reykt spicy bragð, sem passar mjög vel á pizzu.
Það er mjög gott að hafa rabarbara á pizzunni, en ef þið eigið hann ekki til þá er hægt að nota þunnar eplasneiðar eða ananas í staðinn.

Gott er að búa til heimagert pizzadeig, sjá uppskrift að neðan, en svo er líka ljúffengt að nota tilbúinn botn, t.d. heilhveiti naan brauð frá Stonefire. (Naan brauðin frá Stonefire eru í kælinum í Hagkaup og Bónus).

 • 100g tófú 
 • 1 msk chipottle mauk eða chilimauk
 • kartöflur í þunnum sneiðum 
 • 1 leggur rabarbari, skorinn í þunnar sneiðar 
 • smá fetaostur (hægt að nota vegan frá violife) 
 • hvítlauksolía 
 • 1 pítsabotn, ca 25 cm í þvermál (heimagerður speltbotn eða Heilhveiti naan frá Stonefire) 
 • Heimagerður pizzabotn: 

 • 125 g spelt , fínt og gróft til helminga 
 • 1 tsk lyftiduft 
 • ¼ tsk sjávarsalt 
 • ½ tsk óreganó 
 • 1 msk ólífuolía 
 • 0.65 dl heitt vatn

Byrjið á að rífa tófúið og velta því upp úr chipottlemauki, setja á bökunarpappír á ofnskúffu og baka í 15 mín. Hrærið á 5 mín fresti.

Skerið eða mandólínið kartöflurnar og pennslið með hvítlauksolíu og setjið inn í ofn hjá tófúinu, dreifið vel úr kartöflu sneiðunum svo þær bakist. Bakið í 10 mín við 200°C

Ef þið ætlið að baka botninn sjálf er gott að hræra í deigið á meðan kartöflurnar bakast:

Heimagert pizzadeig: Blandið þurrefnum saman í skál, bætið svo olíunni og vatninu út í og hrærið með gaffli (deigið er heitt). Hnoðið svo örstutt með fingrunum og fletjið út þunnan pizzubotn. Forbakið botninn við u.þ.b. 190°C í 4 mínútur (fylgist með að brenni ekki við).

Setjið forbakaðann pítsabotn á bökunarplötu, látið bakað rifið tófú þar ofan á og dreifið vel, setjið kartöflusneiðarnar (sem þið voru að baka) þar ofan á, myljið fetaostinn yfir kartöflurnar, raðið rabarbara bitunum þar ofan á og pennslið þá með hvítlauksolíu. Bakið í ofni við 200°C í 10-12 mín.