Kínóa skál
- 20 mínútur
- 2 manns
- Auðvelt
- Vegan: Já
- Hráfæði: Nei
- Viðbættur sykur: Nei
Uppskrift
Þessi skál er virkilega bragðgóð og fer vel í maga. Hún er tilvalin í hádeginu og jafnvel enn betri í morgunsárið, þegar við höfum tíma til að dekra við okkur. Oft erum við vön sætu bragði á morgnana, en þessi skál fer í aðra átt með bragðlaukana. Upplagt að prófa einn ljúfan helgarmorgun þegar rýmri tími gefst fyrir morgunmatinn.
- 1 dl kínóa
- 2 dl vatn
- 2 msk engiferskot
- smá salt og smá chili
- 4 grænkálsblöð (eða annað grænt)
- 1 msk ristuð sesamolía
- 1 avókadó
- 50g ristaðar pekanhnetur
- 2-4 msk ferskur kóríander
- nokkrir sítrónubátar
- Raita:
- 1 dl kasjúhnetur
- 1 dl vatn
- 1 hvítlauksrif
- 1 daðla
- 1 tsk næringarger
- ½ tsk laukduft
- safinn úr 1 sítrónu
- ½ agúrka
Skolið kínóað og setjið í pott með vatni, engiferskoti, salti og smá chili. Sjóðið í 20 mín.
Á meðan kínóað er að sjóða takið þið grænkálið af stönglinum, skerið í bita og steikið á pönnu upp úr 1 msk af ristaðri sesamolíu.
Útbúið raituna og skerið avókadóið í bita. Ristið pekanhneturnar.
Setjið kínóa í skál með grænkáli og avókadóbitum, stráið hnetum og kóríander yfir ásamt raitu. Kreistið sítrónu yfir og hlakkið til að njóta.
Raita: Allt nema agúrkan sett í blandara og blandað saman og sett í skál. Rífið agúrkuna á grófu rifjárni, kreistið safann úr henni og hrærið síðan út í.