Banana súkkulaði muffins

Kökur

 • 18 manns
 • Auðvelt
 • Banana og súkkulaði muffins
 • Vegan: Já
 • Viðbættur sykur: Já
 • Mjókurlaust: Já
 • Eggjalaust: Já
 • Glútenlaust: Nei

Uppskrift

Í þessar ljúffengu banana og súkkulaðimuffins notum við chiafræ í staðinn fyrir egg og það kemur svona ljómandi vel út.
Uppskriftin er algjörlega skotheld, þrátt fyrir að vera án eggja og mjólkur.
Kökurnar eru mjúkar og hafa gott súkkulaði og bananabragð. Þeir sem eru mikið fyrir súkkulaði geta bætt súkkulaðibitum út í fyrir enn meira súkkulaðipartý. Einnig er gott að saxa hnetur út í deigið, fyrir þá sem vilja. 

 • 2 tsk chiafræ, möluð í kryddkvörn + 3 msk heitt vatn ("chiaegg")
 • 2 b (250g) spelt, t.d. fínt og gróft til helminga
 • ½ b (45g) kakóduft
 • 1 b (200g) hrásykur
 • 3 tsk vínsteinslyftiduft
 • ½ tsk sjávarsalt
 • 400g bananar (3-4 stk án hýðis), skornir í sneiðar
 • ½ b (120ml) jurtamjólk
 • 3 msk kókosolía
 • Ef vill: 100g súkkulaði eða hnetur, smátt saxað

Hitið ofninn í 180°C (ekki blástur)

Malið chiafræin í kryddkvörn eða blandara og hrærið vatninu svo út í.

Blandið þurrefnunum saman í skál.

Setjið banana, jurtamjólk og kókosolíu í blandara og blandið saman, passið að blanda ekki of mikið.

Hellið bananablöndunni og chia blöndunni út í skálina með þurrefnunum og hrærið saman.

Í lokin má hræra söxuðu súkkulaði eða hnetum út í ef vill (má sleppa). 

Smyrjið muffinsform eða setjið pappaform í muffinsformin. Gott er að nota ískúluskeið til að setja deigið í formin, en annars dugar venjuleg skeið líka. Passið að setja ekki of mikið í hvert form því kökurnar lyftast.
Gefur u.þ.b. 18 - 20 muffins. 

Bakið við 180°C í 20-23 mín. 

Gott að taka muffinsin úr forminu og leyfa að kólna aðeins áður en þið njótið.