Jarðarberjaterta með súkkulaðikremi

Kökur

 • Auðvelt
 • Vegan: Já
 • Hráfæði: Já
 • Viðbættur sykur: Já
 • Mjókurlaust: Já
 • Eggjalaust: Já
 • Glútenlaust: Já

Uppskrift

 Hér höfum við himneska jarðarberjatertu sem er dásamleg með helgarkaffinu. Tertan er útbúin með aðferðum hráfæðis og er því ekki bökuð. Við notum lífrænt og gott hráefni, meðal annars möndlur, hnetur, chia fræ og súkkulaði, útkoman er ljúffeng terta sem bráðnar í munni.  

Botn

 • 3 dl möndlur
 • 1 dl valhnetur
 • 2 dl döðlur, smátt saxaðar
 • 1 ½ dl kakóduft
 • 2 tsk rifinn appelsínubörkur
 • 1 tsk vanilluduft

Setjið möndlur og valhnetur í matvinnsluvél og malið meðalgróft. Bætið afganginum af hráefninu út í og blandið þar til þetta loðir vel saman. Þrýstið deiginu niður í form og setjið í frysti á meðan þið bræðið súkkulaðið og útbúið jarðarberjafyllinguna. 


Bananalag

 • 2 stórir eða 3 minni bananar, afhýddir og skornir í sneiðar

Raðið einu lagi af bananasneiðum ofan á btninn og setjið aftur í frysti eða kæli.


Súkkulaðikrem

 • 3 ½ dl kakósmjör
 • 1 ½ dl kakóduft
 • 1 dl kókospálmasykur eða hlynsíróp
 • 1 tsk vanilluduft

Bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði. Setjið svo allt í blandara (eða matvinnsluvél) og látið ganga þar til kremið er silkimjúkt og kekkjalaust. Smyrjið yfir bananana. 


Jarðarberjafylling

 • 4 dl frosin jarðarber (látið þiðna yfir nótt í kæli)
 • 3 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst
 • 1 dl hlynsíróp
 • ½ dl möndlumjólk
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 tsk vanilluduft
 • ⅛ tsk sjávarsalt
 • 1 dl kaldpressuð kókosolía
 • 2 msk chiafræ, möluð

Setjið jarðarberin í blandarann og látið hann ganga þar til þau eru orðin að mauki. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið þær út í ásamt hlynsírópinu, möndlumjólkinni, sítrónusafanum, vanillunni og saltinu og blandið þar til silkimjúkt. Bætið þá kókosolíu og möluðum chiafræjum út í og blandið áfram. Setjið fyllinguna ofan á súkkulaðikremið og setjið kökuna inn í kæli í 2-3 klst. eða í frysti í 1 klst. Skreytið ríkulega með ferskum jarðarberjum eða ávöxtum. 


Skraut

 • Fersk jarðarber eða ávextir